Framboð vegna sveitarstjórnarkosninga 14. maí n.k.
Kosið verður til sveitarstjórnar í sameinuðu sveitarfélagi Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps laugardaginn 14. maí.
Frestur til að skila inn framboðum er föstudaginn 8. apríl kl. 12:00 á hádegi.
Kjörskrá í kosningunum miðast við miðvikudaginn 6. apríl.
Umboðsmenn lista verða boðaðir á fund yfirkjörstjórnar mánudaginn 11. apríl kl. 12:00 þar sem yfirkjörstjórn greinir frá meðferð á einstökum listum.
Yfirkjörstjórn auglýsir framboð fimmtudaginn 14. apríl.
Þann 15. apríl á kosning utan kjörfundar að hefjast en það er Föstudagurinn langi svo beðið er ákvörðunar ráðuneytis um hvort breyta á þeirri dagsetningu.
Minnt er á, að nokkur ákvæði hafa breyst í kosningalögum nr. 112/2021 frá síðustu kosningum og rétt er að leggja áherslu á önnur ákvæði sem máli skipta:
4. gr. (breyting í C lið)
Kosningarrétt við kosningar til sveitarstjórnar á:
a. hver íslenskur ríkisborgari sem náð hefur 18 ára aldri þegar kosning fer fram og á skráð lögheimili í sveitarfélaginu,
b. hver danskur, finnskur, norskur og sænskur ríkisborgari, enda fullnægi hann að öðru leyti skilyrðum a-liðar,
c. hver erlendur ríkisborgari, annar en greinir í b-lið, sem átt hefur skráð lögheimili hér á landi í þrjú ár samfellt fyrir kjördag, [áður 5 ár] enda fullnægi hann að öðru leyti skilyrðum a-liðar.
31. gr.
Aðgangur stjórnmálasamtaka að kjörskrá.
Þegar auglýst hefur verið að gerð kjörskrár sé lokið, sbr. 30. gr., er þeim stjórnmálasamtökum sem bjóða fram lista við kosningar, og frambjóðendum í forsetakjöri, heimilt að óska eftir rafrænum aðgangi að kjörskrá hjá Þjóðskrá Íslands. Aðgangur skal veittur án endurgjalds, svo og önnur gögn sem kunna að verða tilgreind í reglugerð. Heimilt er að nýta aðganginn í þágu eftirlits með framkvæmd kosninga, til að sannreyna hverjir séu kjósendur og koma upplýsingum á framfæri við þá í aðdraganda kosninga. Óheimilt er að birta kjörskrána eða einhverjar upplýsingar úr henni opinberlega eða miðla henni. Við vinnslu persónuupplýsinga samkvæmt ákvæðinu skulu stjórnmálasamtök uppfylla skilyrði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
32. gr.
Leiðréttingar á kjörskrá.
Athugasemdum við kjörskrá skal beint til Þjóðskrár Íslands sem tekur þær þegar til meðferðar og gerir viðeigandi leiðréttingar á rafrænni kjörskrá ef við á. Slíkar leiðréttingar má gera fram á kjördag.
37. gr.
Tilkynning framboðs.
Á framboðslista skulu vera a.m.k. jafnmörg nöfn frambjóðenda og kjósa á í hvert skipti, en aldrei fleiri en tvöföld sú tala.
Gæta skal þess um öll framboð að tilgreina skýrlega nafn frambjóðanda, lögheimili, kennitölu og stöðu eða starfsheiti hans til þess að enginn vafi geti leikið á því hverjir eru í kjöri.
Skulu nöfn frambjóðenda rituð á framboðslista að lágmarki með einu eiginnafni og kenninafni eins og þau birtast í þjóðskrá. Óski frambjóðandi eftir annarri ritun nafns á listann er honum það heimilt, enda séu þau nöfn skráð í þjóðskrá. Frambjóðanda er þó heimilt að rita eiginnafn eða eiginnöfn sín á annan veg en skráð er í þjóðskrá ef hann er kunnur af þeirri beitingu eiginnafns eða eiginnafna sinna.
39. gr. Framboðslistar.
Hverjum framboðslista skal fylgja:
a. staðfesting á skráðu heiti og listabókstaf nýrra stjórnmálasamtaka,
b. yfirlýsing allra þeirra sem eru á listanum um að þeir hafi leyft að setja nöfn sín á listann, undirrituð eigin hendi eða með fullgildri rafrænni undirskrift,
c. tilkynning frá þeim stjórnmálasamtökum sem boðið hafa fram listann um það hverjir tveir menn séu umboðsmenn listans sem taki við athugasemdum um ágalla sem kunna að vera á framboðinu.
Auk gagna skv. 1. mgr. skal fylgja framboðslista fyrir sveitarstjórnarkosningar yfirlýsing um stuðning við listann frá kjósendum í hlutaðeigandi sveitarfélagi. Tilgreina skal nafn meðmælanda, lögheimili hans og kennitölu. Ekki er gerð krafa um meðmælendur í sveitarfélögum með 100 íbúa eða færri. Hámarkstala meðmælenda skal vera tvöföld tilskilin lágmarkstala. Lágmarksfjöldi meðmælenda skal vera sem hér segir:
Við sveitarstjórnarkosningar í nýju sveitarfélagi hér skulu meðmælendur vera að lágmarki 20 og hámarkstalan er 40 (íbúatala 501-2000)
44. gr.
Fundur um yfirferð framboðslista.
Þegar framboðsfrestur er liðinn, sbr. 36. gr., heldur yfirkjörstjórn sveitarfélags við sveitarstjórnarkosningar, fund þar sem umboðsmönnum framboðslista skal veittur kostur á að vera viðstaddir. Finnist þá gallar á framboðslista skal hlutaðeigandi umboðsmönnum gefinn kostur á að leiðrétta þá og má veita frest í því skyni eftir því sem tími og atvik leyfa, að jafnaði sólarhring.
Gallar á framboðslista sem landskjörstjórn eða yfirkjörstjórn sveitarfélags hefur bent á en hafa ekki verið leiðréttir innan tilsetts frests koma til ákvörðunar skv. 45. og 46. gr. Athugasemdir við einstök framboð skulu tilkynntar umboðsmönnum skriflega.
46. gr. 3. mgr.
Nú kemur aðeins fram einn framboðslisti við sveitarstjórnarkosningar og skal þá yfirkjörstjórn sveitarfélags framlengja framboðsfrest um tvo sólarhringa. Komi fram nýr framboðslisti innan þess frests er heimilt að veita honum fjögurra daga frest til að uppfylla skilyrði skv. 39. gr. Komi ekki fram nýr framboðslisti áður en sá frestur er úti verður framkominn framboðslisti sjálfkjörinn.
Frekari upplýsingar veitir yfirkjörstjórn á skrifstofu Langanesbyggðar, opið frá 10-14 s. 468 1220. Einnig er bent á kosningalög nr. 112/2021
Yfirkjörstjórn