Frestur til að skila framboðum í sveitarstjórnarkosningum 14. maí nk.
Frestur til að skila inn framboðum vegna sveitarstjórnarkosninga 14. maí nk. er á hádegi föstudaginn 8. apríl. Framboðum skal skilað til yfirkjörstjórnar á skrifstofu Langanesbyggðar að Langanesvegi 2. Með framboðum skal skila meðmælalista með að lágmarki 20 nöfnum og að hámarki tvöföldum þeim fjölda eða 40 manns. Frambjóðendur og meðmælendur skulu hafa lögheimili í núverandi Langanesbyggð eða Svalbarðshreppi þegar framboðum er skilað inn. Framboðin tilnefna umboðsmann lista þegar þeim er skilað inn.
Kjörstjórn mun fara yfir framboð og meðmælalista og boða umboðsmenn til fundar mánudaginn 11. apríl kl. 12:00. Kjörstjórn staðfestir þá framkomna lista. Ef eitthvað er athugavert við lista frambjóðenda eða meðmælalista fá framboðin einn sólarhring til að bæta út hugsanlegum ágöllum.
Úr kosningalögum:
"Ákvörðun yfirkjörstjórnar
Yfirkjörstjórn boðar umboðsmenn framboðslista til fundar eigi síðar en þremur sólarhringum og fjórum stundum eftir að framboðsfrestur rennur út. Á fundinum skal yfirkjörstjórn greina frá meðferð sinni á einstökum framboðslistum og tilkynna um ákvarðanir sínar. Ákvörðun yfirkjörstjórnar má umboðsmaður skjóta til úrskurðarnefndar kosningamála innan 20 klukkustunda. Úrskurður nefndarinnar skal liggja fyrir innan tveggja sólarhringa eftir að kærufrestur rennur út.
Ef á framboðslista eru fleiri nöfn en tilskilið er skal yfirkjörstjórn nema burt af listanum öftustu nöfnin sem eru fram yfir tilskilda tölu. Sama á við um lista meðmælenda. Ef framboðslistar eru ekki bornir fram af stjórnmálasamtökum merkir yfirkjörstjórn sveitarfélags þá í stafrófsröð eftir því sem þeir hafa borist eða eftir samkomulagi við umboðsmenn listanna. Ef yfirkjörstjórn berst listi er nafn manns stendur á án þess að skriflegt leyfi hans fylgi, eða maður hefur skriflega leyft nafn sitt á fleiri listum en einum, skal yfirkjörstjórn nema það nafn burt af listanum eða listunum. Sama á við um meðmælendur.
Ekki má bjóða sig fram á fleiri framboðslistum en einum. Þá má sami kjósandi ekki mæla með fleiri en einum lista við sömu kosningar. Frambjóðendur á lista geta ekki verið meðmælendur hans. Kjörstjórnarfulltrúar geta ekki verið meðmælendur framboðslista".
Yfirkjörstjórn.