Frétt frá Bjsv Hafliða
Aðalfundur félagsins var haldinn 18 mai síðastliðinn. Starfsemin árið 2008 var svipuð og undanfarin ár. Félagið er skuldlaust sem er lykilatriði fyrir reksturinn á þeim erfiðu tímum sem eru á Íslandi í dag og allt lánsfé mjög dýrt. Hafliði stendur fyrir mörgum atburðum og verkefnum ár hvert sem er hluti af fjármögnun á rekstri og samfélagslegri þátttöku félagsins. Ekki voru neinar stórar fjárfestingar á árinu. Helstu kostnaðarliðir voru almennur rekstrar og viðhaldskostnaður. Keyptar voru 3 nýjar hand tetratalstöðvar sem þýðir að við eigum orðið 6 slíkar og einnig keyptum við ný Gps göngutæki.
Rekstrartekjur voru um 3,1 m.kr. Rekstrargjöld voru um 1,5 m.kr. Hagnaður ársins fyrir afksriftir og fjármagnsgjöld eru um 1,6 m.kr. og niðurstaða ársins er tæp 700 þúsund krónur í afgang.
Þó nokkuð mörg útköll og aðstoðir voru á árinu og haldið var námskeið í meðhöndlun tetratalstöðva og ein sameiginleg æfing var með viðbragsaðilum á svæðinu.
Eins og kunnugt er, er félagið með starfstöð á Bakkafirði og hefur samstarf gengið mjög vel. Félagið sótti um styrk frá Landsbjörgu til kaupa á bíl sem staðsettur yrði á Bakkafirði og fékkst loforð fyrir styrk í lok árs 2008 og eru félagar okkar á Bakkafirði að leita að hentugasta bílnum. Styrkurinn hljóðar upp á 700 þúsund krónur.
Einnig sóttum við um styrk til að gera upp neyðarskýlið á Skálum eða kaupa nýtt. Niðurstaðan úr þeirri vinnu er að við munum fá nýtt neyðarskýli árið 2009. Undanfarin ár hefur félagið haft umsjón með þyrlueldsneyti fyrir Landhelgisgæsluna á Þórshafnarflugvelli og eigum við aðstöðuna.
Helstu tekjuliðirnir fyrir utan Landsbjörgu og félagsgjöld voru meðal annars akstur og aðstoðir, lóðsferðir, Sala á neyðarkalli, jólatré, jólakort, flugeldasala, happadrætti, kaffisala á sjómannadag og 1. des hátíðin. Einnig tókum við að okkur sýnatöku í Þistilfirði fyrir matvælastofnun sem stóð yfir hluta úr sumri
Félagið hefur niðurgreitt björgunarsveitagalla fyrir félagsmenn um 12 þúsund kronur sem þýðir að gallinn kostar um 7 þúsund kronur til þeirra og hvetjum við félagsmenn til að notfæra sér tilboðið.
F.h. Bjsv Hafliða
Siggeir Stefánsson