Fara í efni

Fréttabréf Langanesbyggðar

Fundur
Langanesbyggð      -fréttabréfNr. 10,  2. árg. 06. tbl.  21. Nóvember  2007               

Langanesbyggð      -fréttabréf

Nr. 10,  2. árg. 06. tbl.  21. Nóvember  2007                           Ábm. Björn Ingimarsson

Ráðstefna um atvinnumál í Langanesbyggð

haldin í Þórsveri á Þórshöfn laugardaginn 24. nóvember kl. 13-17 fyrir íbúa Langanesbyggðar.

Hvernig störf þurfum við? Hvernig störf viljum við? Hvernig er staðan núna og hvernig viljum við að hún þróist? Eru næg atvinnutækifæri hér? Búum við yfir góðum hugmyndum og hvernig má þá hrinda þeim í framkvæmd? Þetta eru aðeins sýnishorn af spurningum sem varpa má fram og leita svara við á ráðstefnunni.

Dagskrá:

13:00     Setning.

13:10     Opnunarerindi. Iðnaðarráðherra

13:35     Frumkvöðlastuðningur, smáfyrirtæki. Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga.

14:00     Hlé

14:10     Tækifæri í fjölþjóðlegum verkefnum  Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga.

14:30     Staða atvinnuþróunarverkefna í Langanesbyggð. Sveitarstjóri                                         Langanesbyggðar

14:50     Umræðuhópar. Kynning á starfi vinnuhópa eftir hádegi.

15:15     Kaffihlé. Kaffi og kökur í boði Langanesbyggðar.

15:45.   Umræðuhópar og hugflæði eftir starfaflokkum/greinum:

                1. Ferðaþjónusta                                               

2. Smáiðnaður/tæknigreinar/þekkingariðnaður                         

3. Landbúnaður/sjávarútvegur      

4. Ýmis þjónusta

17:00     Ráðstefnunni frestað.

Á næstu vikum verður síðan boðað til sérstaks framhaldsfundar ráðstefnunnar þar sem niðurstöður umræðuhópanna verða kynntar og rætt um næstu skref.

Íbúar Langanesbyggðar eru eindregið hvattir til þess að láta þessa ráðstefnu ekki framhjá sér fara og mæta á staðinn.

Atvinnumálanefnd Langanesbyggðar

Lausar íbúðir á Þórshöfn!

Neðangreindar íbúðir er lausar til umsóknar:

Pálmholt 1 (3:a herb.) og Pálmholt 3 (3:a herb.).

Umræddar íbúðir verða lausar til útleigu í janúar 2008.

Umsóknareyðublöð og allar nánari upplýsingar er að fá á skrifstofu Langanesbyggðar að Fjarðarvegi 3 á Þórshöfn.  Umsóknarfrestur er til 30. nóvember nk. Skila skal inn skriflegum umsóknum á skrifstofu Langanesbyggðar á þar til gerðum eyðublöðum. - Endurnýja skal eldri umsóknir!

Afleysing á Nausti!

Laust er til umsóknar starf við afleysingar á Nausti.  Forstöðukonur (Borghildur Björg og Hrefna) í síma 468 1322 veita frekari upplýsingar upplýsingar.

Hundaeigendur athugið!

Enn er nokkuð um það að haft er samband við skrifstofur Langanesbyggðar og kvartað undan því að hundar gangi lausir í þéttbýli.  Skýrt er kveðið á um það í samþykktum um hundahald í þéttbýli í sveitarfélaginu að hundar skuli ekki, undir nokkrum kringumstæðum, ganga þar lausir.  Þess er vænst að hundaeigendur virði gildandi reglur og að ekki þurfi að koma til þess að grípa þurfi til refsiaðgerða og jafnvel leyfissviptingar. 

Rétt er að minna á að komi til þess að starfsmenn sveitarfélagsins þurfi að hafa afskipti af hundum vegna brota á umræddum reglum nemur handsömunargjald kr. 3.000,-, í fyrsta skipti, kr. 5.500,-, í annað skipti, og kr. 8.500,- í þriðja skipti. Ef um alvarleg eða ítrekuð brot er að ræða afturkallast viðkomandi undanþága til hundahalds.

Þeir hundaeigendur sem einhverra hluta vegna hafa ekki gengið frá nauðsynlegum formsatriðum til að fá undanþágu til hundahalds í þéttbýli sveitarfélagsins eru hvattir til að gera slíkt hið fyrsta!

Útivistarreglur!

Á ágætlega sóttum aðalfundi foreldrafélags Grunnskólans á Þórshöfn fimmtudaginn 25. október sl. kom m.a. fram að ástæða væri til að vekja athygli foreldra á lögum um útivist barna og unglinga sem í gildi eru. 

Þau eru sem hér segir á tímabilinu frá 1. september til 1. maí:

      

12 ára og yngri mega vera úti til 20:00

13 16 ár mega vera úti til kl. 22:00

Bregða má út af reglunum þegar að börn 13 16 ára eru á leið heim frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu.

Sérfróðir aðilar hafa ítrekað bent á það forvarnargildi sem það hefur að fara að umræddum lögum.  Þess er því vænst að allir foreldrar sjái til þess að reglunum verði hlítt í hvívetna.

Vænta má þess að segulspjöldum með útivistarreglum verði dreift innan skamms á heimili nemenda í 2. og 6. bekk líkt og nokkur undanfarin ár.

16 nýir starfsmenn hjá Langanesbyggð!

Á undanförnum vikum og mánuðum hafa orðið nokkrar breytingar í starfsmannaliði Langanesbyggðar.  Nokkrir hafa látið af störfum en aðrir komið í þeirra stað.

Nýir starfsmenn eru:

                Anna Þorsteinsdóttir, leiðbeinandi við Grunnskólann á Þórshöfn

                Bjarnheiður Jónsdóttir, íþrótta- og tómstundafulltrúi

                Anja Müller, stundakennari við Grunnskólann á Þórshöfn

Hilma Steinarsdóttir, leiðbeinandi við Grunnskólann á Þórshöfn

Hugborg Sturludóttir, leiðbeinandi við Grunnskólann á Þórshöfn

Ragnar Skúlason, kennari við Grunnskólann á Þórshöfn

Sigríður Indriðadóttir, leiðbeinandi við Grunnskólann á Bakkafirði

KlaraValgerður Sigurðardóttir, stundakennari við Grunnsk. á Bakkafirði

Hjördís Matthilde Henriksen, deildarstjóri við leikskólann Barnaból

Andrea Björk Sigurvinsdóttir, starfsmaður í heimilishjálp og á Nausti

Hildur Kristín Aðalbjörnsdóttir, stuðningsfulltrúi við Grunnsk. á Þórshöfn

Lilja Ólafsdóttir, stuðningsfulltrúi við Grunnskólann á Þórshöfn

Herdís Eik Gunnarsdóttir, starfsmaður á Nausti

Dorota Burba, starfsmaður á Nausti

Aldís Gunnarsdóttir, starfsmaður á Nausti

Halla Rún Halldórsdóttir, stafsmaður á Nausti

Allt þetta ágæta starfsfólk er boðið velkomið til starfa um leið og þeim sem kosið hafa að hverfa til starfa á öðrum vettvangi er óskað velfarnaðar.

Malbikunarframkvæmdir á Þórshöfn nk. sumar!

Til stendur að nk. sumar verði allar götur á Þórshöfn malbikaðar auk þess sem ráðist verður í nýframkvæmdir vegna, annars vegar, tengingar Miðholts við Hálsveg, og, hins vegar, vegna lagningar nýs vegar að hafnarsvæði austan við Eyrarveg, samanber nýsamþykkt deiliskipulag hafnarsvæðis á Þórshöfn.  Eftir að leitað var tilboða í verkið var ákveðið að semja við Héraðsverk um framkvæmdina og er miðað við að megin framkvæmdatíminn verði í júní 2008. 

Þeir einstaklingar og þau fyrirtæki sem hafa áhuga á að nýta tækifærið til malbikunar á heimreiðum og/eða plönum eru vinsamlegast beðnir/beðin um að koma á framfæri upplýsingum um slíkt við sveitarstjóra, eða fulltrúa hans, sem jafnframt getur þá upplýst um þann kostnað sem slíkar framkvæmdir munu hafa í för með sér.  Þar sem stefnt er að því að ljúka formlegum samningum varðandi verkið sem fyrst er óskað eftir því að umræddum upplýsingum verði komið á framfæri í síðasta lagi 30. nóvember nk.

Rjúpnatíund á Naust!

Fyrir nokkrum árum hétu nokkrar rjúpnaskyttur á hjúkrunar- og dvalarheimilið Naust á Þórshöfn með þeim hætti að tíundi hver fugl sem veiddist yrði gefinn þangað.  Þannig er verið að sýna samborgurum okkar sem dvelja á Nausti virðingarvott og að framlag þeirra til samfélagsins okkar í gegnum árin hefur ekki gleymst.

Hér með eru rjúpnaskyttur á svæðinu hvattar til að halda því áfram að láta þessa tíund renna til Nausts og þeirra sem þar dvelja.

Hver veit nema að endurnýjun á slíku heiti verði til þess að það glaðni yfir veiðinni sem samkvæmt áreiðanlegum heimildum hefur verið með lakara móti hingað til!

Þórshöfn 21. nóvember 2007/Björn Ingimarsson sveitarstjóri


Skráning á póstlista