Fréttabréf Langanesbyggðar 20 jan 2009
Langanesbyggð -fréttabréf
Nr. 19, 4. árg. 02. tbl. 20. janúar 2009 Ábm.
Frá nýráðnum æskulýðs- og menningarfulltrúa
Ágætu íbúar Langanesbyggðar og nágrennis!
Ég vil þakka góðar móttökur sem ég hef fengið hér á svæðinu við flutning og upphaf starfs. Á þeim fáu dögum sem liðnir eru frá því ég flutti og tók til starfa hef ég orðið þess áskynja að margt gott er í gangi í æskulýðs- og menningarstarfi á svæðinu. Vonandi get ég stutt það starf með ráðum og dáð.
Maður er manns gaman og ég hvet ungt fólk og íbúa alla til að taka þátt í því skipulagða félagslífi sem í boði er. Æfingar í fimleikum, fótbolta, frjálsum og leikjum eru í gangi eða að fara í gang í íþróttamiðstöðinni á Þórshöfn, þar eru líka opnir tímar í badminton, þolfimi og meistarafótbolta. Kirkjukórinn er byrjaður aftur eftir hátíðar og æfir einu sinni í viku, framundan er jóganámskeið um næstu helgi og dansnámskeið í byrjun febrúar. Barnasundnámskeið hefst í vikunni og sömuleiðis starf unglingadeildar Björgunarsveitarinnar. Og svo eru blessuð þorrablótin framundan ásamt ýmsu fleiru.
Hér skal fólki bent á að fylgjast með heimasíðunni www.langanesbyggd.is en þar á að vera hægt að finna tilkynningar og upplýsingar um það sem er á seyði í félagslífi og viðburðum.
Ég hlakka til starfsins framundan og hvet ykkur til að hafa samband ef þið eruð með hugmyndir, viljið koma viðburðum á framfæri eða ræða málin. Það má oftast finna mig á skrifstofu Langanesbyggðar á Þórshöfn, en einnig má hringja í síma 468-1220 eða 892-8202. Netfangið er halldora@langanesbyggd.is.
Svartholið opnað!
Unglingar athugið, að jóga, fimleikar, kirkjukórinn, dansnámskeið og fleira sem auglýst er, er líka fyrir ykkur krakkar. Þið eruð velkomin í þetta allt.
En þið eruð eflaust orðin langeygð eftir að félagsmiðstöðin opni. Og nú er komið að því:
Mætið öll í Svartholið á föstudaginn kl. 20:00 til skrafs og skemmtunar. Unglingar frá árg. ´96 og eldri velkomnir. Takið með ykkur blýant og nokkur kíló af góðu skapi.
Bestu kveðjur,
Halldóra Gunnarsdóttir
æskulýðs- og menningarfulltrúi Langanesbyggðar
Fundur hreppsnefndar Langanesbyggðar verður haldinn fimmtudaginn 22. janúar 2009 kl. 17:00 í félagsheimilinu Þórsveri.
DAGSKRÁ:
- Fundargerðir nefnda og ráða.
· Hreppsnefnd 08.01.09
· Atvinnumálanefnd 12.01.09
· Umhverfis-, skipulags- og bygginganefnd 13.01.09
· Íþrótta- og tómstundanefnd 13.01.09
- Skýrsla sveitarstjóra.
- Innsend erindi.
Til kynningar:
· Félagsþjónusta Norðurþings Fjölskylduþjónusta Þingeyinga, ársskýrsla 2007.
· Stjórn SSA Kveðjur vegna Drekasvæðis.
· Samband íslenskra sveitarfélaga Minnispunktar frá fundi með samgönguráðuneyti og Vegagerðinni um vegaskrá 08.01.09.
· Félag tónlistarskólakennara Ályktun dags. 06.01.09
Til afgreiðslu:
· ASÍ Aðgengi atvinnulausra að sundstöðum.
· Heilbrigðisráðuneytið Áform um sameiningu heilbrigðisstofnana.
· Vegagerðin Veghald þjóðvega í þéttbýli í Langanesbyggð
· Þórarinn Stefánsson Hugmynd að stofnun tónlistarfélags á Eyjafjarðarsvæðinu og í Þingeyjarsýslum.
- Kátir dagar 2009 Tillaga að fyrirkomulagi.
- Áherslur vegna skýrslu um Drekasvæði.
Þórshöfn 20. janúar 2009/