Fara í efni

Fréttatilkynning

Fundur
Á 135. löggjafarþingi Íslendinga 2007-2008 var lögð fram og samþykkt þingsályktunartillaga um að fela ríkisstjórninni að aðstoða sveitarfélögin Vopnafjarðarhrepp og Langanesbyggð við að undirbúa og ka

Á 135. löggjafarþingi Íslendinga 2007-2008 var lögð fram og samþykkt þingsályktunartillaga um að fela ríkisstjórninni að aðstoða sveitarfélögin Vopnafjarðarhrepp og Langanesbyggð við að undirbúa og kanna þörf á starfrækslu  þjónustumiðstöðvar sem gæti annast alla helstu þjónustu hérlendis við skip sem leita olíu á Drekasvæðinu.

Í kjölfar þessarar samþykktar stofnuðu sveitarfélögin  félagið, Drekasvæðið ehf., til þess að vinna að undirbúningi málsins.   Í febrúar 2008 ákvað Iðnaðarráðherra að aðstoða sveitarfélögin með fjár- og vinnuframlagi til þess að standa straum að sérfræðiaðstoð við þarfagreiningu og staðarvalsathugunum fyrir þjónustumiðstöð á svæðinu.   Verkefnið var boðið út í mars meðal nokkurra verkfræðistofa með reynslu í sambærilegum verkefnum og var samið við Línuhönnun og Almennu verkfræðistofuna í apríl 2008.

Skýrslan sem kynnt er hér í dag er afrakstur þeirrar vinnu.   Verkefninu var stýrt af iðnaðarráðuneytinu, en fulltrúi Drekasvæðisins ehf. starfaði við verkefnið, sem tengiliður milli ráðuneytisins og sveitarfélaganna Langanesbyggðar og Vopnafjarðarhrepps. 

Markmið verkefnisins var að kanna möguleika og hagkvæmni þess að á svæði þessara sveitarfélaga verði reist þjónustumiðstöð fyrir olíuleit, tengdar rannsóknir og síðar mögulega olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Verkefnið fólst í þarfagreiningu fyrir starfsemi olíuleitarfyrirtækja á fyrstu tveimur stigum olíuleitar, þ.e.a.s. mælingum og tilraunaborunum og síðar borun dýpri borhola ef í ljós kemur að slíkt sé fýsilegt.   Þessi fyrstu ferli geta tekið allt að 8-10 ár.   Að þeim tíma liðnum gætu vinnsluboranir hafist.  

Í skýrslunni skyldi og meta möguleika til uppbyggingar þjónustusvæðis á landi á vinnslustigi olíu og gass í Gunnólfsvík í Finnafirði.  Í þessu sambandi átti að greina þá aðstöðu sem fyrir er á svæðinu og möguleikum á frekari uppbyggingu hennar þ.a. notkunar-, umhverfis- og öryggiskröfum sé framfylgt.

Staðarvalsskýrslan liggur nú fyrir og verður kynnt á íbúafundum  í sveitarfélögunum Vopnafjarðarhreppi og Langanesbyggð í dag .   Dagskrá fundanna er svofelld:

·        Ávarp Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra

·        Kynning Drekasvæðisskýrslu - Hafsteinn Helgason, Efli

·        Olíuleitarverkefni, útboð o. fl., kynnt - Kristinn Einarsson, Orkustofnun

·        Öldufarslegar aðstæður - Gísli Viggósson, Siglingastofnun.

·        Áhrif á framtíðarskipulag - Halldór Jóhannsson, Teikn á lofti

·        Pallborðsumræður Fyrirspurnir

Niðurstöður skýrslunnar bera það með sér að fýsilegt er að byggja upp þjónustu á svæðinu á olíuleitarstiginu sem áætlað er að geti staðið í 8-10 ár.   Í upphafi verði að mestu nýtt mannvirki sem til staðar eru í sveitarfélögunum þ.e. hafnarsvæði, flugvellir og önnur aðstaða.  Jafnframt eru aðstæður í Gunnólfsvík til frekari uppbyggingar taldar mjög fýsilegar þegar og ef olía og gas finnst á svæðinu.

Útboð vegna olíuleitarinnar verða auglýst á morgun, 15. janúar.   Við það er miðað að úthlutað verði fimm leyfum til sérhæfðra olíuleitarfyrirtækja til þess að ráðast í umfangsmiklar og dýrar rannsóknir og boranir á Drekasvæðinu.  Gert er ráð fyrir því að unnt verði að veita leyfin síðari hluta ársins.

Á svæðinu eru bundnar miklar vonir við það að vel takist til í þessum málum og að mögulegt verði að byggja upp veruleg atvinnutækifæri á grundvelli þessa verkefnis til framtíðar.

Fulltrúar sveitarfélaganna Langanesbyggðar og Vopnafjarðarhrepps og stjórn Drekasvæðisins ehf. vilja að lokum þakka fyrir mjög gott samstarf við iðnaðarráðuneytið og aðra þá sem komið hafa að undirbúningi þessa verkefnis.

Staðarvalsskýrsluna má finna á heimasíðu Iðnaðarráðuneytisins: http://www.idnadarraduneyti.is/

Fyrir hönd Drekasvæðisins ehf.

Þorsteinn Steinsson, sveitarstjóri, Vopnafirði, sími:4731300/8961299

Björn Ingimarsson, sveitarstjóri, Langanesbyggð, sími:4681220/8951448