Fréttatilkynning frá Héraðssambandi Þingeyinga
26. janúar 2009 Ferðir barna og unglinga á íþróttaæfingar styrktar Börnum ekið tæplega 60 þúsund kílómetra til æfinga hjá Héraðssambandi Þingeyinga á síðasta ári. Samfélagssjóður Alcoa er stærsti stuðningsaðili aksturssjóðs HSÞ.
Um 80 börn njóta góðs af styrkjum úr nýjum aksturssjóði Héraðssambands Þingeyinga en úthlutað var úr sjóðnum í fyrsta skipti í dag. Styrki fengu 24 hópar foreldra og aðildarfélög HSÞ sem séð hafa um að aka börnum á íþróttaæfingar sambandsins. Alls hafa þessir styrkþegar ekið börnum 58.501 km til æfinga á styrktímabilinu sem er frá janúar til ágústs 2008.
Aksturssjóðurinn var stofnaður að frumkvæði HSÞ og er tilraunaverkefni til tveggja ára. Samfélagssjóður Alcoa er stærsti einstaki stuðningsaðili sjóðsins og hefur lagt honum til tæpar sex milljónir króna. Aðrir sem styðja sjóðinn eru meðal annars ríkissjóður og sveitarfélög í Þingeyjarsýslum. Að þessi sinni var úthlutað einni og hálfri milljón króna úr sjóðnum, en stefnt er að því að úthlutað verði úr honum þrisvar á ári.
Starfssvæði HSÞ er víðfeðmt og mikill kostnaður getur fylgt því að aka börnum á íþróttaæfingar. Ef tekið er mið af kílómetragjaldi, sem ákveðið er af embætti ríkisskattstjóra, er kostnaður við aksturinn um 5,4 milljónir króna. Sjóðurinn var stofnaður til að mæta miklum kostnaði foreldra og einstakra aðildafélaga HSÞ. Markmið sjóðsins er að auka möguleika barna og unglinga til að sækja æfingar í þeirri íþróttagrein sem þau hafa áhuga á, við sem bestar aðstæður.
Starfsvæði HSÞ er mjög stórt og dreifbýlt. Sem dæmi má nefna að akstursvegalengd frá Langanesi í austri, í framanverðan Bárðardal í vestri eru rúmir 300 km eða álíka og frá Reykjavík að Lómagnúpi. Aðstaða til íþróttaiðkunar á svæðinu er mjög góð en mismunandi eftir svæðum. Á mörgum félagssvæðum eru til dæmis ekki nógu margir einstaklingar í ákveðnum aldursflokkum til að hægt sé að æfa hópíþróttir. Sjóðnum er því sérstaklega ætlað að styrkja akstur barna og ungmenna á æfingar á milli félagssvæða innan HSÞ. Mikil áhersla er lögð á að ferðir séu samnýttar eftir því sem kostur er og aðstæður leyfa. Sjóðnum er meðal annars ætlað að bæta nýtingu mannvirkja sambandsins, efla félagsstarf og samheldni og auka samtakamátt íþróttamanna og fjölskyldna þeirra á starfssvæði HSÞ.
Frekari upplýsingar veitir:
Arnór Benónýsson, formaður HSÞ
Sími: 661 6292
Netfang: arno@ismennt.is