Fara í efni

Frístundastyrkir

Fréttir
Sveitarstjórn hefur samþykkt innleiðingu frístundastyrks fyrir börn og ungmenni á aldrinum 6-18 ára í Langanesbyggð á almanaksárinu 2018.

Sveitarstjórn hefur samþykkt innleiðingu frístundastyrks fyrir börn og ungmenni á aldrinum 6-18 ára í Langanesbyggð á almanaksárinu 2018. Einnig eru möguleikar fyrir hópa aldraða (67 ára og eldri) og öryrkja að sækja um styrki vegna námskeiða og frístundaverkefna á þeirra vegum á sama tímabili. Samþykkt hefur verið að styrkurinn nemi alls kr. 30.000 á einstakling og eru möguleikar á að dreifa þessum styrk á fleiri en eitt námskeið eða verkefni.

Markmið og tilgangur frístundastyrksins er að styrkja 6 til 18 ára börn, aldraða og öryrkja í Langanesbyggð til þátttöku í uppbyggilegu frístundastarfi og auka möguleika til þátttöku óháð efnahag. Einnig er það von sveitarstjórnar að þessi styrkur verði til  að ýta undir aukna hreyfingu og félagsþátttöku barna, unglinga aldraðra og öryrkja. Enn fremur til að vinna gegn óæskilegu brottfalli í eldri aldurshópum barna og unglinga og til að auka virkni í frístundatíma þessara hópa. Styrkhæf verkefni eru ýmiss íþrótta- og frístundaverkefni sem uppfylla ofangreind markmið. Af ásettu ráði eru ekki sett niður nákvæm skilyrði fyrir því hvers konar frístundir fólk vill stunda að öðru leyti, heldur verða hugmyndir og óskir notenda að ráða för.

Þau félög, samtök eða hópar sem hyggja á þátttöku í þessu verkefni þurfa að senda inn formlega  umsókn til sveitarfélagsins, þremur vikum áður en námskeið hefst. Listi yfir styrkhæf námskeið verða síðan birt á heimasíðunni. Foreldrar, aðstandendur eða einstaklingar sjálfir koma síðan með kvittun til sveitarfélagsins og fá endurgreiðslu fyrir allt að kr. 30.000.

Skilyrði fyrir styrk að viðkomandi sé með lögheimili í Langanesbyggð. Sjá reglur á heimasíðu sveitarfélagsins hér, Reglur og samþykktir