Fuglaskoðunarskýli komið fyrir við Skoruvík
16.08.2022
Fréttir
Í dag var fuglaskoðunarskýli sett niður á Skoruvíkurbjargi á Langanesi. Það eru Langanesbyggð og félagið Fuglastígur á Norðurausturlandi sem standa að verkefninu. Stór hluti fjármögnunar kemur frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða samkvæmt samningi þar um. Skýlið er eitt af nokkrum fuglaskýlum sem byggð hafa verið og komið fyrir á stöðum á Norðausturlandi þar sem má komast í návígi við fugla.
Með tilkomu þessa skýlis batnar aðstaða fólks til að fylgjast með fuglalífi á þessum áhugaverða stað sem Langanesið og Fontur sannarlega eru. Það var Trésmiðjan Rein ehf sem smíðaði fuglaskoðunarskýlið og flutti það á sinn stað.
Á myndunum má sjá þegar skýlið var sett niður. Myndir tók Þorri Friðriksson.