Fundur með landeigendum í Finnafirði
Fundur með landeigendum í Finnafirði var haldin í gær, 17. september í félagsheimilinu Þórsveri á Þórshöfn. Á fundinum kynntu forsvarsmenn Langanesbyggðar og Vopnafjarðarhrepps áform sín um mögulega uppbyggingu á stórskipahöfn í firðinum. Hafsteinn Helgason verkefnastjóri frá Verkfræðistofnunni Eflu, sem hefur þróað verkefnið með sveitarfélögunum fór yfir landfræðilega kosti fjarðarins, framtíðarsýn er varðar siglingarleiðir um norðurskautið og möguleika á uppbyggingu á hafnarmannvirkjum á svæðinu. Þá var kynntur áhugi Bremenports á að koma að frekari þróun og rannsóknum er varðar mögulega nýtingu á svæðinu. Fundurinn var í alla staði mjög upplýsandi fyrir alla sem hann sóttu og verður áfram unnið í nánu samstarfi við landeigendur að þróun á verkefninu. Fyrirhugað er að kynna verkefnið fyrir íbúum í Langanesbyggð og Vopnafjarðarhreppi í október n.k. og munu sveitarfélögin auglýsa opna fundi er þar að kemur.