Fara í efni

Fyrirhugað að rannsaka möguleikana á stórskipahöfn í Finnafirði

Fréttir
Úr heimsókn í Langanesbyggð
Úr heimsókn í Langanesbyggð
Þýska fyrirtækið Bremenports vill á næstu mánuðum stofna félag hér á landi og leggja 45 milljónir króna í rannsóknir á því hvort skynsamlegt sé að reisa alþjóðalega stórskipahöfn í Finnafirði við Langanes.

Þýska fyrirtækið Bremenports vill á næstu mánuðum stofna félag hér á landi og leggja 45 milljónir króna í rannsóknir á því hvort skynsamlegt sé að reisa alþjóðalega stórskipahöfn í Finnafirði við Langanes.

 Forsvarsmenn fyrirtækisins segja stór tækifæri felast í dýpt fjarðarins og staðsetningu þegar skipaleiðir um norðuríshaf opnast. Finnist olía á Drekasvæðinu margfaldist möguleikarnir. Forsvarsmenn Bremenports flugu um svæðið í morgun. Að því búnu gengu þeir á fund með ríkisstjórninni þar sem þeir kynntu hugmyndir sínar. Vopnafjarðarhreppur og Langanesbyggð hafa unnið með hugmyndina í nokkur ár. Siggeir Stefánsson oddviti Langanesbyggðar segir svæðið búa yfir fjölbreyttum möguleikum. „Það er mjög aðdjúpt í Finnafirði við mikið landrými og hún hefur þá sérstöðu að vera hvergi annars staðar á Íslandi og líklega hvergi annars staðar við norðurhöf,“ segir hann.

 Myndi gjörbylta matarverði

 Menn telja ekki langt í að unnt verði að flytja vörur um og yfir Norðurpólinn til og frá Asíu og til Evrópu og Ameríku. „Þetta mun stytta flutningsleiðina stórkostlega mikið, í staðinn fyrir að fara í gegnum Suez-skurðinn og þá leiðina,“ segir Siggeir.  „Þannig að þetta mun breyta landslaginu hérna á Íslandi mjög mikið, enda myndi Ísland vera miðja flutninga á milli stórra notenda,“ bætir hann við. „Þetta myndi gjörbylta mjög mörgu hér á Íslandi, til að mynda matarverði. Eins getur þetta tengst olíuleit á Drekasvæðinu að þá getur þetta svæði nýst í það verkefni.“

 Oddvitinn segir undirtektirnar í heimabyggðinni góðar. Nýtt aðalskipulag hafi nýlega verið samþykkt þar sem athafna-, iðnaðar- og hafnarsvæði er merkt við Finnafjörð. Í Finnafirði er eitt býli og nokkur eyðibýli. Viðræður við landeigendur hefjast í september.

Þjóðverjarnir vilja fyrst rannsaka landfræði staðarins, öldufar og jarðtækni. Verði þær niðurstöður jákvæðar verður ráðist í umfangsmiklar rannsóknir á lífríki og umhvefi staðarins. Þetta ferli muni taka 2-3 ár. Þeir segja íslensk stjórnvöld hafa tekið jákvætt í hugmyndirnar. Þjóðverjarnir segja að unnt væri að hafa 6 klíómetra langan viðlegukant í Finnafirði og þá væri komin ein stærsta stórskipahöfn heims. Um 400 störf myndu skapast á hafnarsvæðinu og enn fleiri afleidd störf. Skatttekjur af starfseminni yrðu miklar.

/ruv.is

Fréttaumfjöllun RUV um heimsóknina má finna í heild sinni hér.