Fyrsta skóflustungan að 4 íbúða raðhúsi á Þórshöfn
Langþráðum áfanga var í dag náð í Langanesbyggð. Fyrsta skóflustungan að 4 íbúða raðhúsi við Miðholt á Þórshöfn var tekin i dag. Það er leigufélagið Brák sem byggir í samvinnu við Langanesbyggð. Dawid Potrykus smiður er verktaki við bygginguna.
Brák hses. er óhagnarðardrifið leigufélag og íbúðirnar ætlaðar tekjulágum einstaklingum og fjölskyldum. Brák hses. sér alfarið um útleigu á íbúðunum, viðhald og umsjón. Sveitarfélagið er einn af stofnendum félagsins og sveitarstjóri í stjórn þess. Nú þegar á leigufélagið yfir 200 íbúðir um allt land og þær verða yfir 300 í árslok.
Bygging þessara íbúða markar tímamót sem lengi hefur verið beðið eftir þar sem ekki hefur verið lagt í svo umfangsmiklar byggingar íbúða í sveitarfélaginu frá 2010.
Vonandi markar þetta nýtt skeið framfara í sveitarfélaginu þar sem nú þegar standa yfir umfangsmiklar framkvæmdir víða og íbúar og gestir merkja mikil umsvif. Íbúðirnar verða tilbúnar til leigu í haust.