Fara í efni

Gaman saman - Samstarfsverkefni Barnabóls og Nausts

Fundur
Undanfarna mánuði hafa 9 krakkar af leikskólanum Barnabóli heimsótt Naust á 3ja vikna fresti. Markmiðið er að stuðla að tenglsamyndun milli barna og aldraðra og eiga saman notalega og uppbyggilega sam

Undanfarna mánuði hafa 9 krakkar af leikskólanum Barnabóli heimsótt Naust á 3ja vikna fresti. Markmiðið er að stuðla að tenglsamyndun milli barna og aldraðra og eiga saman notalega og uppbyggilega samverustund.

Börnin og íbúar Nausts hafa brallað ýmislegt saman í vetur, m.a föndrað fyrir jólin, rifjað upp músastigagerð og litað jólamyndir. Þau hafa málað með vatnslitum, púslað og skoðað og lesið saman barnabækur. Nú í febrúar tók páfagaukurinn Steini á móti börnunum og var að vonum vinsæll.

Unnið er eftir Eden Alternative hugmyndafræðinni, Life Worth Living, en þar meðal annars sagt frá því hvernig plöntur, dýr og börn færa gleði inn á hjúkrunarheimili og auka vellíðan íbúanna, minnka einmannaleika og leiða. Skapa tækifæri fyrir íbúanna til að veita umhyggju en ekki einungis þiggja hana. Leikskólinn er að innleiða Uppbyggingarstefnuna og þar er einnig komið inn á að skapa umhyggjusamt samfélag og lagt áherslu á tengslamyndun kynslóða, t.d. við eldri borgara.

Mikilvægt er að hafa heimsóknirnar sem heimilislegastar, þær eru ekki settar upp sem skemmtanir, heldur er reynt að ná fram stemningu sem minnir á sambandið á milli afa, ömmu og barnabarnanna. Heimsóknirnar byrja á því að börnin kynna sig með handabandi og segja til nafns og kveðja þegar þau fara. Börnin syngja jafnvel saman nokkur lög í byrjun.