Glaðbeittir unglingar útskrifast úr Grunnskóla Þórshafnar
Í dag voru skólaslit í Grunnskóla Þórshafnar sem var að klára sitt áttugasta og fjórða starfsár. Ásdís skólastjóri fór yfir vetrarstarfið sem hefur meðal annars einkennst af framkvæmdum við skólann en þeim var ekki fulllokið fyrr en í febrúar. Hún sagði að nemendur, starfsfólk, foreldrar og iðnaðarmenn ættu hrós skilið fyrir þolinmæði og sveigjanleika á meðan á þessu stóð. Eftir standi betri vinnustaður þar sem bæði nemendur og starfsfólk uni vel við sitt. En það voru ekki bara nemendur í 10. bekk sem luku skólagöngu, heldur voru þrír nemendur í 9. bekk sem útskrifuðust einnig og halda á vit nýrra ævintýra í haust. Hrafngerður Ösp fékk þakkargjöf frá skólanum en hún hefur nú starfað við skólann í 20 ár. Þau hjónin, Hrafngerður og Siggeir voru einnig að útskrifa yngsta barnið sitt úr grunnskóla og hafa verið með börn í skólanum síðan þau fluttu hingað fyrir 20 árum. Af því tilefni gáfu þau skólanum afar fallegt skákborð sem á eftir að sóma sér vel í nýju anddyri skólans. Á eftir skólaslitunum var síðan handavinnusýning í skólanum.
1. og 2. bekkur með Láru og Lilju Ólafs
3. og 4. bekkur með Kamilu og Lilju Jóns
5. og 6. bekkur með Huldu Kristínu og Helgu
7. og 8. bekkur með Árna Davíð
Glaðbeittur 9. og 10. bekkur með Hönnu Maríu
Fuglafitið lifir :)
Kennarar og starfsfólk skólans
Hrafngerður, Siggeir og fjölskylda afhenda skólanum skákborðið.
Skákborðið góða var strax komið í notkun
Myndir Gréta Bergrún