Góð rekstrarniðurstaða Langanesbyggðar 2019
Niðurstöður rekstrar Langanesbyggðar voru góðar á árinu 2019, þrátt fyrir loðnubrest og um 30 m.kr. lækkun tekna vegna hans.
Rekstrarniðurstaða A og B hluta sveitarfélagsins, samkvæmt ársreikningi A og B hluta, var jákvæð sem nam 54,3 m.kr., en jákvæð fyrir A hluta um 55,6 m.kr. samkvæmt rekstrarreikningi. Þessar niðurstöður voru kynntar við fyrri umræðu ársreiknings sveitarfélagsins fyrir árið 2019 á fundi sveitarstjórnar í gær, 7. maí.
Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu 939,9 m.kr. samkvæmt ársreikningi fyrir A og B hluta, en þar af námu rekstrartekjur A hluta 744,9 m.kr. Álagningarhlutfall útsvars var 14,52% sem er lögbundið hámark. Álagningarhlutfall fasteignaskatts í A-flokki var 0,625% sem er lögbundið hámark með álagi. Í B-flokki var álagningarhlutfallið 1,32% sem er lögbundið hlutfall og í C-flokki var álagningarhlutfallið 1,65% sem er lögbundið hámark með álagi. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2019 nam 806,0 m.kr. samkvæmt efnahagsreikningi fyrir A og B hluta, en eigið fé A hluta nam 545,2 m.kr.