Fara í efni

Góðan daginn öllsömul.

18 okt.2008Mikið óskaplega er gaman að opna blöð og vefmiðla.  Allstaðar eru myndir af Þórshafnarbúum við störf sín, geislandi af ánægju og af hinu mikla öryggi sem umvefur hinar nyrstu bygg

18 okt.2008

Mikið óskaplega er gaman að opna blöð og vefmiðla.  Allstaðar eru myndir af Þórshafnarbúum við störf sín, geislandi af ánægju og af hinu mikla öryggi sem umvefur hinar nyrstu byggðir nú um stundir.   Nú eru landsbyggðarmenn, og þó einkum og sér í lagi Þórshafnarbúar, öfundsverðir miðað við hina þjáðu borgarbúa, sem margir hverjir eru búnir að tapa milljónum  í einhverjum misjöfnum bankastofnunum. Greyin, alveg orðnir blankir.

Nú tel ég vera sóknarfæri fyrir Norðaustur hornið að til dæmis opna sjúkrahús fyrir landsmenn  í blokkinni á Raufarhöfn(er blokkin ekki tóm hvort sem er ) stofna  háskóla á  Svalbarði og stofna þing á Hóli (þar var jú einu sinni þingmaður). Þetta ætti ekki að vera neitt vandamál enda sparisjóðurinn á  Þórshöfn svo fullur af peningum að nýja álklæðningin er farin að gapa frá segja mér kunnugir.   

Ég er sannfærður um að ef Ingófur Arnarson væri að koma  núna til að nema land  þá myndu öndvegissúlur hans þjóta eins og 200 hestafla jetski meðfram Suðurlandi, Vesturlandi  og Vestfjörðum taka 90° beygju við Horn og þjóta með Norðurlandi og rakleitt inn inn í Þistilfjörð þar sem Ingólfur myndi  svo finna þær. 

En nóg um þessa miklu möguleika sem Norðaustur hornið á til þess að verða höfuðstaður landsins.

Sláturhúsballið er að skella á og nú gefst Þórshafnarbúum kostur á því að upplifa alvöru kreppu á eigin skinni og koma til Reykjavíkur á Sláturhúsballið Það verður reyndar engin kreppa á ballinu.  Þegar til Reykjavíkur er komið munu menn kannski sjá tötrum klætt fólk í löngum biðröðum fyrir framan Mæðrastyrksnefnd með fötur í höndum að bíða eftir hveiti í aðra og rúgmjöli í hina.  Einnig mætti kannski sjá rykfallna einkaþotu sem stendur ferðbúin að öllu leiti nema því að eigandinn á ekki fyrir eldsneyti. Og ef vel er að gáð þá mætti kannski sjá eigandann vera að safna dósum við Kringlumýrarbrautina til að geta fjármagnað eldsneytiskaupin.  Að mínu mati er þetta eitthvað sem hinir kreppufríu  Þórshafnarbúar ættu ekki að láta fram hjá sér fara.  Þetta tækifæri er núna en ekki seinna.  Seinna gæti kreppan verið búin eða  Reykjavík  jafnvel komin í eyði og þá verður nú ekki margt að sjá hér í borg óttans eins og hún er gjarnan kölluð af Þórshafnarbúum.

´Látið þið nú sjá ykkur á sláturhúsballinu.

Kreppukveðjur Ölver Arnarsson