Góðir íbúafundir um sorphirðu
Íbúafundir um sorpmál voru haldnir á Bakkafirði og Þórshöfn á miðvikudag og fimmtudag. Einnig var haldinn sérstakur fundur með bændum. Markmið fundanna var að kynna bætta þjónustu, ásamt því að svara spurningum íbúa. Á fundinum með bændum voru settar fram hugmyndir um hvernig skyldi staðið að förgun rúlluplasts með viðunandi hætti fyrir alla. Eins var rætt um átak til að hreinsa gamlar vélar frá bændum næsta vor.
Nú er sorp flokkað í tvo flokka, grænu og gráu tunnuna. Markmiðið er að hámarka það sem fer í þá grænu til endurvinnslu og að sem minnst fari í gráu tunnuna. Sem dæmi um árangur í endurvinnslu má nefna að fyrir hvert tonn af endurunnum pappír er hægt að hlífa um 17 fullvöxnum trjám og spara um 26.000 lítra af vatni. Einnig er takmarkað sem við getum og viljum setja til urðunar á Bakkafirði. Svona markmið nást ekki nema með góðri og virkri þátttöku allra íbúa og forsvarsmanna fyrirtækja á svæðinu.
Að auki gengu fulltrúar Gámafélagsins í hús í byggðarlaginu þar sem þeir kynntu nýtt fyrirkomulag og bætta þjónustu við íbúa.
Stefnt er að því að önnur fundasyrpa verði þegar góð reynsla verður komin á hið nýja fyrirkomulag, jafnvel á næsta ári.