Góður íbúafundur á Bakkafirði
Íbúar á Bakkafirði eru staðráðnir í að fylgja verkefninu Betri Bakkafjörður vel eftir undir forystu Langanesbyggðar þegar aðkomu Byggðastofnunar lýkur um næstu áramót.
Miðvikudaginn 2. október var efnt til árlegs íbúafundar í verkefninu Betri Bakkafirði undir hatti Brothættra byggða. Fundurinn var vel sóttur og umræða málefnaleg. Formaður verkefnisstjórnar setti fundinn og kom inn á að fundurinn væri haldinn í skugga erfiðrar umfjöllunar um málefni Bakkafjarðar og nauðsyn þess að ræða þau mál af nærgætni að því marki sem þau yrðu rædd á fundinum. Fyrst og fremst væri fundurinn þó haldinn til að fara yfir árangur í verkefninu og ræða tækifæri næstu missera og ára. Sveitarstjóri, Björn S. Lárusson, fór yfir mikilvægi orðspors Bakkafjarðar og hvað íbúar gætu gert til að hlúa að því. Oddviti, Sigurður Þór Guðmundsson, fór yfir framtíðarsýn Langanesbyggðar varðandi framhald verkefnisins eftir að Byggðastofnun dregur sig í hlé úr verkefninu. Hann lagði áherslu á samheldni og samtakamátt íbúa í því samhengi og að sveitarstjórn Langanesbyggðar sé staðráðin í að standa vel við bakið á samfélaginu með því m.a. að ráða starfsmann á staðinn til að fylgja árangri eftir.
Að því búnu fór verkefnisstjóri Betri Bakkafjarðar, Romi Schmitz, yfir stöðu markmiða í verkefnisáætlun og greindi frá ýmsum áhugaverðum verkefnum í því sambandi. Í ljós kom að vinna við fjölmörg upphaflegra starfsmarkmiða er komin vel á veg eða henni lokið. Eva María Hilmarsdóttir sagði frá Grásleppunni, hátíð sem haldin var s.l. sumar í annað sinn með góðri þátttöku íbúa og gesta. Jafnframt greindi hún frá árangursríku samstarfi um nýtingu afurða úr grásleppu sem staðið hefur yfir síðastliðin tvö ár og mun halda áfram. Aðilar að samstarfinu eru meðal annars Bjargið fiskvinnsla á Bakkafirði, Biopol á Skagaströnd, Brim, Vignir G. Jónsson ehf., Háskólinn á Akureyri og Bakkasystur. Verkefnið hefur hlotið stuðning úr Lóunni og nú síðast úr Matvælasjóði.
Romi og Hildur Halldórsdóttir, ráðgjafi hjá SSNE, stýrðu umræðum um framtíð Bakkafjarðar í vinnuhópum og komu þar fram margar áhugaverðar hugmyndir sem verkefnisstjóri og íbúar munu vinna áfram með ef að líkum lætur.
Í lok fundarins urðu umræður um mikilvægi fiskveiða- og vinnslu fyrir samfélagið á Bakkafirði og um þá uppbyggingu sem hefur orðið hjá Fiskvinnslunni Bjargi á verkefnistíma Betri Bakkafjarðar. Fyrir liggja drög að samningum fyrirtækisins og Byggðastofnunar um nýtingu sértæks aflamarks á Bakkafirði næstu ár og má búast við að samningar verði undirritaðir von bráðar. Það er enda mjög mikilvæg forsenda fyrir áframhaldandi uppbyggingarstarfi á Bakkafirði.
Fyrir fundinn gafst áhugasömum tækifæri til að heimsækja frumkvöðla og skoða styrkt frumkvæðisverkefni. Fyrsta stopp var hjá nýju fuglaskoðunarhúsi sem hefur fengið heitið Stélið og er staðsett í Finnafirði. Reimar Sigurjónsson á Felli hefur haft veg og vanda að smíði hússins. Skammt frá því er sjósundsaðstaða sem Reimar kom upp á síðasta ári. Næst var komið við á áningarstað rétt við Djúpalæk en þar hefur myndarlegu upplýsingaskilti um skáldið Kristján frá Djúpalæk verið komið smekklega fyrir. Hvoru tveggja spennandi áfangastaðir fyrir ferðamenn sem og heimafólk og hafa þegar laðað að gesti. Að síðustu var stoppað hjá Krzysztof Krawczyk og Sigríði Ósk Indriðadóttur á Miðfjarðarnesi og var þar fylgst með þjálfun smalahunda. Krzysztof hefur náð miklum árangri í þjálfun smalahunda og þetta er sannarlega áhugavert verkefni.
Dagurinn var allur hinn ánægjulegasti og samfélagið tók vel á móti fulltrúum verkefnisstjórnar Betri Bakkafjarðar.