Grunnskólinn fær höfðinglega gjöf
Grunnskólanum á Þórshöfn barst heldur betur góð gjöf á dögunum, þegar Átthagafélag Þórshafnar sendi skólanum skjávarpa til að nota við kennslu í skólanum. Skjávarpinn kemur sér sannarlega vel, því sjávarpi (þessi eini!) sveitarfélagsins er bæði umsetinn og kominn til ára sinna. Er það von forsvarsmanna Átthagafélagsins að skjávarpinn nýtist vel til kennslu og uppfræðslu ungra Langnesinga í framtíðinni.
Fjárveiting til skjávarpakaupanna var samþykkt á aðalfundi félagsins fyrir skömmu, á svokölluðum eggjafundi, en þá koma brottfluttir Þórshafnarbúar saman í höfuðborginni og gæða sér á svartfuglseggjum frá Langanesi. Fundir þessir eru jafnan vel sóttir, enda margsannað að hvergi í heimi hér fyrirfinnast bragðbetri og hollari egg, enda sótt í bjarg af ástríðu og umhyggju fyrir fuglum og mönnum. Alls komu nærri eitthundrað manns til eggjafundarins og tóku hraustlega til matar síns, svo að hinir sprenglærðu eggjasuðumeistarar félagsins höfðu vart undan. Var fjárveitingin síðan borin undir fundinn og samþykkt samhljóða með dynjandi lófataki.
Það var Helgi Mar Árnason sem afhenti skjávarpann fyrir hönd Átthagafélagisns en svo skemmtilega vildi til að nýráðinn skólastjóri Grunnskólans á Þórshöfn, Ingveldur Eiríksdóttir, veitti skjávarpanum viðtöku og mun það hafa verið hennar fyrsta embættisverk við skólann.
Heldur betur!