Helgi Mar Þórshafnarbúi
27.12.2007
Kæru Langnesingar nær og fær.Ég finn mig knúinn til að leggja orð í belg!Auðvitað langar Ölver að búa á Þórshöfn! Hvern langar það ekki? Sjálfur hef ég hug á að taka mín eigin búsetumál til gagngerrar
Kæru Langnesingar nær og fær.
Ég finn mig knúinn til að leggja orð í belg!
Auðvitað langar Ölver að búa á Þórshöfn! Hvern langar það ekki? Sjálfur hef ég hug á að taka mín eigin búsetumál til gagngerrar endurskoðunar, því mér virðist að atvinnutækifærum í Langanesbyggð muni fjölga verulega á allra næstu árum. Það er virkilega ánægjulegt að sjá hversu stórhuga Langnesingar eru, mitt í þeirri volæðisöldu sem skekur annars landsbyggðina. Vonandi verður hægt að finna not fyrir starfskrafta mína, og Ölvers, í sauðfjárbúinu stóra eða í kalkverksmiðjunni fínu. Og það væri nú ekki ónýtt að taka með beinum hætti þátt í olíuævintýrinu sem er í uppsiglinu. Og ef ekki, þá er ég viss um að Toggi hefur not fyrir mig í kúfiskvinnslunni, þó ekki væri nema fyrir gamlan vinskap.
Hugnist Ölveri ekkert af þessu þá getum við félagarnir, ég, Ölver og Toggi, alltaf tekið upp þráðinn þar sem frá var horfið í hvítmúsarækt. Fáir, ef nokkur, búa yfir jafn víðtækri sérþekkingu á eldi hvítra músa og það væri synd að virkja ekki þessa þekkingu sveitarfélaginu og reyndar landinu öllu til hagsbóta og -sældar. Tilraunarækt okkar á hvítum músum hér um árið leiddi í ljós, svo ekki verður um villst, að Langanes er einstaklega vel til slíkrar ræktar fallið. Ein af megin niðurstöðum tilraunarinnar var sú að frjósemi hvítra músa er með eindæmum og þess vegna mætti koma upp myndarlegri rækt á undraskömmum tíma. Reyndar kom frjósemin aðstandendum tilraunarinnar algerlega í opna skjöldu. Tækjakostur og aðbúnaður gerði ekki ráð fyrir slíkri frjósemi og því urðu nokkur afföll af stofninum undir það síðasta. Sem reyndar leiddi til annarrar merkilegrar uppgvötunar á atferli hvítra músa. Stofninn er nefnilega afar harðger. Afföllinn sýndu og sönnuðu að hvítar mýs þrífast vel villtar í Langneskri náttúru. Mörgum árum eftir að tilrauninni lauk sáust hvítar mýs á vappi um þorpið, þorpsbúum til ómældrar ánægju. Tilraunaræktin gat auk þess af sér afar athyglisverða sláturtækni sem full ástæða er til að þróa frekar.
Hvað afurðina varðar eru ótal möguleikar í stöðunni. Þó ekki hafi verið gerðar tilraunir með að þróa afurðina til manneldis, væri slíkt afar athygliverður kostur og þá jafnvel samhliða þróun á manneldisvinnslu kúfisks en mér skilst að enn sem komið er séu markaðir fyrir kúfisk til manneldis fremur smáir. Einnig mætti skoða að nota músakjötið til fóðurs og jafnvel til beitu. Músaskinnsiðnaður er auk þess, að því að ég best veit, óplægður akur og ætla ég að hvít skinn séu fágætari en hefðbundin grá, sem aftur ætti að leiða til hærra verðs, sé eitthvað að marka lögmál framboðs og eftirspurnar. Framleiðslukostnaður er hinsvegar sá sami. Fóðurkostnaður ætti þannig að vera í algeru lágmarki enda allt fóður við hendina; loðnumjöl eins og þær geta í sig látið og vatn úr Hafnarlæknum gaf góða raun í áðurnefndri tilraun (ef hann rennur þá ennþá). Og ekki ættu mýsnar að líða kalkskort, verði af fyrrnefndum áformum.
Um leið og ég tek undir fram komnar áskoranir til Ölvers um að halda áfram skrifum sínum á þessum vettvangi vil ég óska Langnesingum allra landa gleðilegra jóla og velfarnarðar og komandi ári.
Annars kíkti ég bara hér inn og langaði til að kvitta.
Kveðja,
Helgi Mar Þórshafnarbúi