Hellisbúinn snýr heim
Á laugardaginn ætlar Jóel Sæmundsson að sýna Hellisbúann í Þórsveri. Sýningin er einn vinsælasti einleikur heims og er nú settur upp hérlendis í þriðja sinn. Hellisbúinn er frásögn af lífinu sjálfu, hjónabandi, ástum og ósætti. Hellisbúinn útskýrir sína sýn á samlífið og samskipti kynjanna. Konur og karlar, og allir hinir, sem hafa einhvern tímann verið í sambandi, eru í sambandi eða langar í samband, geta skemmt sér vel og samsamað sig við sögur Hellisbúans.
Jóel segist ætla að gera sitt besta til að skemmta heimamönnum en hann er sjálfur alinn upp að mestu á Þórshöfn. Hann segist hafa flutt í dýrðina árið 1989 og verið hér alla sína grunnskólagöngu, eða í 10 ár. Þaðan lá leiðin í Kópavog og síðan út til USA að spila körfubolta í skóla. Eftir stopp í Reykjavík fór hann síðan í leiklistarnám til London þar sem hann kláraði BA gráðu. Í dag býr hann í Hafnarfirði og segist búa með útsýni yfir sjóinn sem minni á heimahagana. Jóel kláraði nýlega að leika aðalhlutverk í myndinni Pity the lovers, sem er sænsk mynd sem kemur út á næsta ári. Þá hefur hann leikið í ýmsum leikritum og myndum, og var meðal annars gaurinn sem opnaði dyrnar á þyrlunni í Ófærð. Hann hefur einnig verið í ýmsum verkefnum, leikstjórn og með leiklistarnámskeið, meðal annars á Þórshöfn í fyrra.
Jóel segist mjög spenntur að koma með leikritið heim og ætli að gera sitt besta til að kitla hláturtaugar viðstaddra "Ég vona svo sannarlega að það verði góð mæting og hægt að sýna að svona sýningar eiga alveg heima útá landi, ég ætla að gera mitt besta til að fara "all inn" fyrir ykkur, djöfull hlakkar mér til...eða mig? langt síðan ég var í íslenskukennslu hjá Dagnýju sko" segir hann kátur í bragði.
Sýningin hefst kl.20.00 á laugardagskvöld, miðaverð er 4490 en tveir miðar á 8000.
Jóel við tökur á nýjustu myndinni Pity the lovers
Til gamans þá er hér ein gömul og gríðarlega góð mynd. Stefán Már fyrir miðju sem umsjónarkennari hjá árgangi 83 og 84. Jóel er í aftari röð, þriðji frá vinstri.
Töff í skólaferðalagi :)