Héraðsskjalasafn Þingeyinga 50 ára
Opið hús í tilefni 50 ára afmælis fyrir þá sem vilja kynna sér starfsemi safnsins.
laugardaginn 12. janúar 2008 kl. 10:00 - 16:00
Safnahúsinu á Húsavík
Menningarmiðstöð Þingeyinga
- Hverjir nota héraðsskjalasöfn.
- Hvaða skjalagögn eru þar geymd, hvernig er gengið frá þeim og skráð?
- Hvaða reglur gilda um héraðsskjalasöfn?
- Hvaða félagasamtökum ber að skila inn gerðabókum?
- Áhugasamir um ættfræði geta kynnt sér notkun á örfilmum og lesvél (manntöl og kirkjubækur)
- Þingeyingaskrá Konráðs Vilhjálmssonar og handskrifaðar bækur Indriða Þórkelssonar og Indriða Indriðasonar verða til sýnis.
- Ýmis skjalagögn verða sýnd.
- Ef einhver hefur haldið að héraðsskjalasafnið sé rykfallinn, óskráður skjalahaugur þá er það misskilningur - öllu er haganlega fyrir komið í sérstakar öskjur og hefur nú verið tölvuskráð.
Þingeyingar!
Ofantalið eru fáein atriði varðandi héraðsskjalasafnið ykkar
Verið velkomin - heitt á könnunni eins og venjulega
Guðni Halldórsson, héraðsskjalavörður
Nánari upplýsingar um safnið.
HÉRAÐSSKJALASAFN ÞINGEYINGA
50 ára
Þann 7. janúar 2008 voru liðin 50 ár frá fyrsta fundi stjórnar Héraðsskjalasafns Þingeyinga. (hét þá Héraðsskjalasafn Suður-Þingeyjarsýslu og Húsavíkurkaupstaðar). Stofndagur miðast við þennan fyrsta fund því þá hófst vinna safnsins, sem haldið hefur áfram allar götur síðan mismikið á hinum ýmsu tímabilum. Raunar voru skjalagögn tekin að berast nokkru áður en tekið var við þeim á Bókasafni Suður-Þingeyinga í húsi KÞ við Garðarsbraut.
Páll H. Jónsson, kennari á Laugum, vakti fyrstur máls á nauðsyn þess að stofna sérstakt héraðsskjalasafn. Hann ritaði Sýslunefnd Suður-Þingeyinga bréf, dags. 27. maí 1955, þar sem hann beindi þeirri tillögu til nefndarinnar að komið yrði upp héraðsskjalasafni fyrir sýsluna, í samræmi við lög um héraðsskjalasöfn , nr. 7, 12. febrúar 1947 og þágildandi reglugerð um sama efni frá 5. maí 1951. Jafnframt beindi hann því til sýslunefndarinnar hvort ekki myndi eðlilegt að hafa um stofnun slíks skjalasafns samráð við bæjarstjórn Húsavíkurkaupstaðar. Ári síðar, eða 24. maí 1956, ítrekaði Páll H. þessa fyrirspurn til sýslunefndar. Málið var tekið fyrir á aðalfundi sýslunefndar, 29. maí 1956, en hann var sá síðasti sem Júlíus Havsteen stýrði, og þar var málið samþykkt (56. mál).
Bæjarstjórn Húsvíkur samþykkti formlega 9. maí 1957 að gerast aðili að málinu og var Jóhann Skaptason, sýslumaður og bæjarfógeti, skipaður í stjórnina af hálfu Húsavíkurkaupstaðar en tveir fulltrúar sýslunefndar voru þeir Jón Gauti Pétursson, bóndi á Gautlöndum og Páll H. Jónsson, kennari á Laugum. Leitað var samvinnu við Norður-Þingeyinga en sýslunefnd þar var þá ..ekki viðbúin samvinnu um málið, að svo stöddu.
Stjórnin hélt, eins og áður segir, sinn fyrsta fund 7. janúar 1958 og skipti með sér verkum. Jón Gauti varð formaður, Jóhann gjaldkeri og Páll H. Ritari.
Safnið fékk aðstöðu í eldtraustu herbergi í aðalbyggingu Kaupfélags Þingeyinga og fyrstu menn, sem stjórn réð til vinnu við móttöku gagna, skráningu og frágang, voru Þórir Friðgeirsson en nokkru síðar Sigurður Egilsson.
Stefán Pétursson, þáverandi þjóðskjalavörður, var Þingeyingur og sveitungum sínum hjálpsamur fyrstu skrefin, gaf góð ráð og útvegaði eitt og annað fyrir safnið. Á fjárlögum 1957 fékk safnið nokka fjármuni til kaupa á filmum af skjölum í Þjóðskjalasafni.
Lesaðstaða var afleit fyrst, og lengstum síðan, því enn er það svo að notendur safnsins fá aðstöðu inni á skrifstofu þar sem tveir starfsmenn eru oft að sinna störfum og getur því verið truflandi fyrir bæði safngestinn sem og starfsmenn. Á móti kemur að starfsmenn hafa reynt að vera á hjólum kringum gestinn, veitandi þá þjónustu sem í boði er á skjalasafni og skrifstofu.
Þrátt fyrir annmarka, og skort á rými til ýmissa hluta, hefur safnið verið notað af leikum jafnt sem lærðum í gegnum árin. Fræðimenn hafa leitað þar fanga í rannsóknarvinnu jafnt og áhugafólk um ættfræði, örnefni og ýmsan sögulegan fróðleik.
Auðvelt er nú að finna það sem safnið geymir. Tölvuskráning á þáverandi spjaldskrá hófst 1993 og tók rúm 5 ár með hléum að skrá hana. Frá sama tíma (1993) hafa öll ný aðföng verið skráð í umrætt tölvukerfi, sem fengið var frá Þjóðskjalasafni Íslands og uppfært síðan eins og tilefni hefur gefið. Við leit eða skoðun er ýmist leitað eftir skjalamyndara eða efni.
Á tímamótum !
Tækifærið er nýtt á þessum tímamótum til að minna sveitarfélög Þingeyinga á að senda inn skilaskylt efni sem og minna fulltrúa fyrirtækja og félagasamtaka, sem lögum samkvæmt eiga að skila inn gögnum, á hið sama. Starfssvæði safnsins nú nær frá Þingeyjarsveit í vestri en í Langanesbyggð í austri.
Einnig er talað til einstaklinga, sem varðveita ýmis skjalagögn heima, er betur væru komin í héraðsskjalasafninu við öruggar aðstæður til framtíðarvarðveislu. Það er grunnhlutverk safnsins og þannig geymir það gögn sem eru undirstaða rannsókna á sögu héraðsins. Sama gildir raunar um gamlar ljósmyndir. Á þennan hátt hefur safnið þjónað Þingeyingum í 50 ár og mun gera í framtíðinni. Á heimasíðu Safnahússins á Húsvík / Menningarmiðstöðvar Þingeyinga, www.husmus.is er tengileið undir Héraðsskjalasafn sem leiðir inn á heimasíðu Þjóðskjalasafns Íslands www.archives.is Þar er hægt að finna bæði gildandi lög um Þjóðskjalasafn Íslands frá 1985, sem og reglugerð um héraðsskjalasöfn frá 1994. Starfsemi Héraðsskjalasafns Þingeyinga byggir á þessum lögum og í reglugerðinni er að finna upptalningu á því hvaða aðilar í héraði það eru sem eiga að skila inn gögnum til safnsins. Janúar 2008 Með góðri kveðju, f.h. Héraðsskjalasafns Þingeyinga Guðni Halldórsson, héraðsskjalavörður
HÉRAÐSSKJALASAFN ÞINGEYINGA
Safnahúsið á Húsavík / Menningarmiðstöð Þingeyinga
Stóragarði 17 - 640 Húsvík - Sími: 464 1860 - Netfang:safnahus@husmus.is