HRAÐFRYSTISTÖÐ ÞÓRSHAFNAR HF:
Ágrip af sögu
Hraðfrystistöð Þórshafnar hf. var stofnuð 8. júní 1969 af heimamönnum með það að markmiði að byggja upp atvinnulíf á svæðinu. Í byrjun rak Hraðfrystistöðin frystihús og saltfiskvinnslu í leiguhúsnæði. Eftir fjögurra ára rekstur var byrjað á framkvæmdum á nýju vinnsluhúsnæði og hófst starfsemi þar árið 1976. Árið 1973 keypti Hraðfrystistöðin síldarverksmiðju á Þórshöfn sem byggð var á fimmta áratugnum.
Nýtt saltfiskverkunarhús var tekið í notkun árið 1983. Árið 1986 keypti Hraðfrystistöðin loðnumjölsverksmiðju frá Noregi, Í dag afkastar loðnuverksmiðjan 1.000 tonnum á sólarhring og er með fullkomnustu loðnuverksmiðjum landsins. Árið 1990 sameinuðust Hraðfrystistöð Þórshafnar og Útgerðarfélag N-Þingeyinga og eignaðist Hraðfrystistöðin við þá sameiningu togarann Stakfell sem var gerður út til ársins 2000. Hlutdeildarfélag Hraðfrystistöðvar Þórshafnar Skálar ehf, var stofnað árið 1993. Félagið rak nótaveiðiskipin Júpiter og Neptúnus til ársins 2000 en þá voru Skálar sameinaðir Hraðfrystistöðinni. Neptúnus var seldur á árinu 2003 en Júpiter er enn í rekstri. Árið 1996 hóf Hraðfrystistöðin veiðar og vinnslu á kúfiski í samvinnu við bandaríska aðila. Kúfiskvinnslan er nú rekin af Íslenskum Kúfiski ehf. Í desember 2003 keypti félagið Fjölveiðiskipið Þorstein EA-810 sem kemur til með að veiða hluta af bolfiskkvóta félagsins auk þess að veiða og vinna síld og loðnu um borð.Á árinu 2004 keypti félagið tog og nótaveiðiskipi Júpiter frá Færeyjum og fékk hann nafnið Júpiter ÞH 363 þá seldi HÞ Júpiter ÞH 61 til Vestmannaeyjar. Félagið gerir í dag út 2 skip, Júpiter ÞH-363 og Þorstein ÞH-360 rekur loðnuverksmiðju og fiskvinnslu þar sem aðallega eru til vinnslu uppsjávarafurðir.