Hreppsnefndarfundur
Á fundi hreppsnefndar Langanesbyggðar föstudaginn 29. febrúar sl. var eftirfarandi bókun gerð m.a.:
Álver á Bakka við Húsavík.
Eftirfarandi tillaga að ályktun lögð fram:
Hreppsnefnd Langanesbyggðar lýsir yfir eindregnum stuðningi við áform um uppbyggingu álvers á Bakka við Húsavík.
Kjölfesta í atvinnumálum er grundvöllur þess að snúa megi vörn í sókn og viðhalda gróskumikilli byggð á Norðausturlandi. Þar er fyrirhugað álver á Bakka bæði eftirsóknarverður og raunhæfur valkostur.
Álver á Bakka mun skapa um 300 ný framtíðarstörf, samkvæmt skýrslu um samfélagsleg áhrif álvers á þeim stað. Afleidd störf vegna álvers verða mun fleiri og áhrifa þeirra mun gæta langt út fyrir sveitarfélagið Norðurþing.
Samþykkt samhljóða og sveitarstjóra falið að koma ályktuninni á framfæri við fjölmiðla og þingmenn kjördæmisins.
Framangreindu er hér með komið á framfæri.
Björn Ingimarsson
Sveitarstjóri