Fara í efni

Hugmyndir um friðun Langaness

Fréttir

Í byrjun þessa árs óskaði sveitarstjórn eftir því við umhverfisráðherra að skoðaðir væru kostir og gallar nokkurra helstu friðlýsingarkosta á Langanesi. Í kjölfarið fól áðuneytið  Umhverfisstofnun að gera úttek á friðlýsingarkostum á Langanesinu. Fylgir sú samantekt með til upplýsinga. Í samantektinni er gerð grein fyrir helstu forsendum og staðháttum, farið yfir verndargildi svæðisins, helstu friðlýsingarkostir nefndir og hvað friðlýsing hefði í för með sér fyrir umhverfið og mögulegum ávinningi friðunarkosta sem greindir eru.

Að mati sveitarstjórnar gætu mörg tækifæri falist í friðun Langaness, eins og m.a. er bent á í úttektinni. Langanes er óbyggt fyrir utan Heiðarfjall og það á sér merkilega og langa sögu sem gerð yrði betri skil. Náttúran þar er líka óhemju fögur, mörg fyrirbrigði sem ekki hefur verið rannsökuð sem skyldi, svo örfá dæmi séu nefnd. Tækifæri myndu líka skapast við uppbyggingu og að bæta aðgengi ferðamanna á svæðinu, samhliða því sem hagsmunum náttúrunnar væri gætt svo örfá atriði séu nefnd.

Ef af friðun yrði myndi hún ekki hafa áhrif á sjálfbæra nýtingu lands og auðlinda, hvort sem er til beitar eða eggjatöku. Sveitarfélagið myndi heldur ekki breyta áherslum sínum við að halda varg (ref og mink) í skefjum á svæðinu.

Tekið skal fram að um hugmyndir er að ræða, ekki tillögur. Næstu skref eru almenn kynning innan sveitarfélags og meðal landeigenda sem hlut eiga að máli. Stefnt er að almennum fundi með ráðherra þegar smithætta hindrar ekki. Ritið verður einnig aðgengilegt á heimasíðu sveitarfélagsins.

Úttektina má sjá hér á heimasíðu sveitarfélagsins

Það er von sveitarstjórnar að þessi úttekt eigi að geta orðið byrjunin á góðu samtali meðal íbúa á svæðinu og annarra sem hagsmuni hafa. Óskað er eftir að þeir sem hafa athugasemdir eða ábendingar sendi þær með bréfi eða á netfangið skipulag@langanesbyggd.is