Fara í efni

Íbúafundur á Bakkafirði

Fréttir
Umræður á fundinum á Bakkafirði
Umræður á fundinum á Bakkafirði

Líflegur íbúafundur var haldinn í skólahúsinu á Bakkafirði fimmtudaginn 18. ágúst á vegum verkefnisstjórnar verkefnisins Betri Bakkafjörður. Þátttakan var sérlega góð en vel á fjórða tug íbúa og gesta sóttu fundinn og ræddu þar áherslur og stefnu verkefnisins fyrir komandi misseri. Í dag búa um 70 manns á Bakkafirði og nærsveitum en í upphafi aldar var íbúafjöldi í kringum 150. Verkefni og áskoranir eru af ýmsu tagi. Bakkafjörður hefur tekið þátt í verkefninu Brothættum byggðum frá árinu 2019.

Betri Bakkafjörður, líkt og önnur sambærileg verkefni víða um land, byggir ekki síst á frumkvæði heimafólks. Góðum tíma var því varið í kynningar á verkefnum sem fengið hafa styrk úr Frumkvæðissjóði Betri Bakkafjarðar. Um leið var sagt frá öðrum samfélagseflandi verkefnum en íbúar og aðrir velunnarar byggðarlagsins hafa, í samvinnu við sveitarfélagið og landshlutasamtökin SSNE, verið ötulir við að undirbúa slík verkefni og afla styrkja úr ýmsum sjóðum. Þannig hafa, frá síðasta íbúafundi, um 36 milljónir króna runnið til fjölbreyttra verkefna á svæðinu auk þeirra fjármuna sem veittir hafa verið úr Frumkvæðissjóði Betri Bakkafjarðar.

Nokkrir þingmenn í Norðausturkjördæmi voru á ferð um landshlutann og heimsóttu Bakkafjörð af þessu tilefni. Ingibjörg Isaksen, fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis, ávarpaði fundinn og talaði um mikilvægi þess að nýta verkefnistímann vel til að virkja samtakamáttinn og sækja á ný mið, finna þann stuðning sem í boði er hverju sinni, og eflast í slíkri sókn með aukinni reynslu og þekkingu.

Að loknum íbúafundi var nýr útsýnispallur vígður og blásið til kvöldverðar á Hafnartanganum. Um er að ræða fyrsta áfanga verkefnisins Hafnartanginn á Bakkafirði – áningarstaður við ysta haf sem hlaut styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.