Fara í efni

Íbúafundur um mótun skólastefnu

Fréttir
Á laugardaginn hittust tuttugu íbúar á fundi í félagsheimilinu Þórsveri til að undirbúa mótun skólastefnu fyrir byggðina– en fundurinn var öllum opinn. Ingvar Sigurgeirsson prófessor við kennaradeild Háskóla Íslands stýrði fundinum en hann hefur verið ráðinn ráðgjafi um mótun skólastefnunnar.

Á laugardaginn hittust tuttugu íbúar á fundi í félagsheimilinu Þórsveri til að undirbúa mótun skólastefnu fyrir byggðina– en fundurinn var öllum opinn. Ingvar Sigurgeirsson prófessor við kennaradeild Háskóla Íslands stýrði fundinum en hann hefur verið ráðinn ráðgjafi um mótun skólastefnunnar. Þeim sem ekki komust á fundinn skal bent á að hægt er að hafa samband við Ingvar í síma 896 3829 eða í tölvupósti skolastofan@skolastofan.is).

 Á fundinum var unnið í hópum með „þjóðfundarfyrirkomulagi“ við að svara eftirfarandi spurningum:

  • Hvað eruð þið ánægðust með í skólunum ykkar?
  • Hvernig viljið þið sjá skólana í byggðinni eftir tíu ár?
  • Hvaða leiðir viljið þið fara til að styrkja skólastarfið?
  • Hvað er brýnast að gera í skólamálum?

Sem dæmi um svör við þessum spurningum má nefna ánægju með vinnu með dyggðir í leikskólanum, umhverfismennt, skemmtilegan leikvöll og stöðugleika í starfsmannahaldi. Ánægja var meðal annars með fjölbreytta kennsluhætti, einstaklingsmiðað nám og þemavinnu í grunnskólunum. Alls voru nefnd um 30 atriði sem ánægja var með. 

Þegar rætt var um skólana eftir tíu ár sáu sumir hópar fyrir sér sameiningu skólanna og aukna áherslu á verkleg viðfangsefni, starfsnám, raungreinanám, sköpun og enn sterkari tengsl skóla, heimila og nærsamfélags.

Flestir hóparnir voru sammála um mikilvægi þess að mótuð yrði langtímastefna í skólamálum sem vel væri fylgt eftir og mikil umræða var um hvernig efla mætti jákvæð viðhorf í garð skólanna.

 Sem dæmi um brýn viðfangsefni má nefna aukið samstarf leik- og grunnskóla, skólabyggingar, bætt kjör starfsmanna skólanna og að vinna meira með jákvæðni, metnað, þrautseigju, sjálfstraust og fleiri dyggðir.

Á mánudaginn heldur Ingvar fundi með starfsfólki skólanna, auk þess að hitta nemendur. Stefnt er að því að drög að skólastefnu liggi um næstu áramót.     

Fundur um skólastefnu

Fundur um skólastefnu   

Fundur um skólastefnu