Fara í efni

Inn milli fjallanna

Íþróttir
2 ágúst 2008Síðastliðinn sunnudag fór fram dagskrá á Öxarfjarðarheiði og Svalbarðsskóla í Þistilfirði tileinkuð ævi og verkum Jóns Trausta. Guðmundur Magnússon betur þekktur sem Jón Trausti fæddist ár

2 ágúst 2008

Síðastliðinn sunnudag fór fram dagskrá á Öxarfjarðarheiði og Svalbarðsskóla í Þistilfirði tileinkuð ævi og verkum Jóns Trausta. Guðmundur Magnússon betur þekktur sem Jón Trausti fæddist árið 1873 á Rifi á Melrakkasléttu. Hann ólst upp á Melrakkasléttu og í Öxarfjarðarheiði fram yfir fermingu. Seinna þegar hann hóf að gefa út ljóð sín og önnur ritverk mátti glöggt greina að uppvaxtarár hans voru honum hugleikin. Hann ólst upp við fátækt og hrakningar og upplífið eitt mesta harðæri sem skollið hefur á Íslandi, fellisvorið mikla 1882. Mörg ljóða Jóns Trausta fjalla um þetta landsvæði og í skáldsögum hans eru bæði persónur og aðstæður sem vel má hugsa sér að séu upprunar á æskustöðvum skáldsins.

Í fótspor Höllu......

Hluti dagskrárinnar fór fram á Öxarfjarðarheiði, en lagt var af stað í gönguferð um heiðina klukkan hálftíu um morguninn. Þátttaka í göngunni var góð. Gengið var að Hrauntanga þar sem Jón Trausti bjó í nokkur ár sem barn. Víða hefur verið um það rætt að sögusvið Heiðarbýlabókanna megi finna á Öxarfjarðarheiðinni. Þennan sunnudagsmorgun brá svo við að Halla (leikin af Margréti Sverrisdóttur) tók glaðhlakkaleg á móti göngufólki í Hrauntanga og bauð því upp á kaffisopa. Síðan var gengið inn að Kvíaborgum, en þar er einstakt landsvæði með hraundröngum og mosaflæmi. Þar voru ær hafðar í kvíum meðan búið var í heiðinni. Skúli Ragnarsson frá Ytra-Álandi og Sif Jóhannesdóttir stýrðu göngunni. Á vegi göngumanna urðu fornir vettlingar, sauðskinnskór og íleppar sem í voru brot úr Heiðarbýlasögunum sem lesin voru upphátt. En þessir textar voru einmitt vel til þess fallnir að auðvelda hópnum að sjá fyrir sér hvernig lífið hefði verið á heiðunum á tíma heiðarbyggðar hér á landi.

Dagskrá í Svalbarðsskóla

Klukkan tvö var dagskrá síðan framhaldið í Svalbarðsskóla í Þistilfirði. Þar flutti einsöngvarinn Þórhallur Barðason ljóð skáldsins við undirleik Páls Szabó. Andri Snær Magnason flutti skemmtilegt erindi, en hann er fæddur 1973 og því hundrað árum yngri en Jón Trausti og hefur líkt og hann leitað innblásturs á Melrakkasléttu. Einnig var lesið upp úr verkum skáldsins og flutt erindi um ævi hans. Dagskránni stjórnaði Daníel Pétur Hansen skólastjóri á Svalbarði. Gestir voru um 50 talsins og gæddu sér á hnallþórum að hætti Kvenfélags Þistilfjarðar undir dagskránni.

Verkefnið

Með þessari dagskrá var hrint í framkvæmd hugmynd sem lengi hefur verið í gerun. Menningarráð Eyþings styrkti verkefnið en Bjarnveig Skaftfeld frá Ytra-Álandi og Sif Jóhannesdóttir starfsmaður Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga héldu utan um framkvæmdina. Hugmyndin var þó ekki þeirra, Sigríður Jóhannesdóttir á Gunnarstöðum hafði mikinn áhuga á þessu verkefni en hún féll frá á síðasta ári. Mikill áhugi er á svæðinu frá Öxarfirði og yfir í Þistilfjörð til að vinna enn frekar með tengsl Jóns Trausta við svæðið og verk hans.

Myndir & grein

Sif jóhannesdóttir