Ísfélagið hefur fryst 3.000 tonn af loðnu
7.februar 2008
Við erum búnir að frysta um 3000 tonn en þetta er loðna í smærri kantinum. Menn bíða spenntir eftir að loðna finnist í einhverju magni og gangi upp á grunnið við Hornafjörð þannig að hægt verði að hefja veiðar í grunnnót. Við erum með lítinn kvóta og auðvitað bíðum við eftir því að meira finnist svo hægt verði að mæla og gefa út viðbót.
Þetta segir Eyþór Harðarson útgerðarstjóri Ísfélags Vestmannaeyja í samtali við vefinn sudurland.is. Þorsteinn ÞH, skip Ísfélagsins, var á miðunum fyrir austan land á miðvikudag en Guðmundur VE, Þorsteinn ÞH og Júpiter ÞH búnir að fá 6000 tonn samanlagt í janúarmánuði.
Guðni Ingvar Guðnason, útgerðarstjóri Vinnslustöðvarinnar, segir í samtali við sama vef að þar á bæ bíði menn frekari frétta af loðnuveiðum áður en skip félagsins fari af stað.