Ísfélagið og Matís á Sjávarútvegssýningu
Sjávarútvegssýningin 2008 var haldin í Fífunni í Kópavogi 2.-4. október sl. Á sýningunni buðu Ísfélag Vestmannaeyja hf og Matís ohf upp á smakk á lifandi kúfskel en þessi aðilar hafa unnið sameiginlega að verkefnum tengdum veiði og vinnslu á ferskri kúfskel.
Mikil örtröð skapaðist þegar boðið var upp á kúfskelina og féll bragð fisksins vel í geð þeirra sem prófuðu enda mikið lostæti þarna á ferð. Svo mikil var ásóknin að sýnendur buðu mun lengur upp á veigarnar en til stóð í upphafi. Margir voru að prófa lifandi Kúfskel í fyrsta sinn og létu vel af henni. Meðal þeirra sem smökkuðu var Einar Kristinn Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Sif Friðleifsdóttir alþingismaður og líkaði þeim kúfskelin vel.
Á meðfylgjandi myndum má meðal annars sjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Sjöfn Sigurgísladóttur, forstjóra Matís, Ægi Pál Friðbertsson Framkvæmdarstjóra hjá Ísfélaginu ásamt Siggeiri Stefánssyni, framleiðslustjóra hjá Ísfélaginu, gæða sér á kúfskelinni.
Ísfélag Vestmannaeyja hf. hefur unnið kúffiskafurðir á Þórshöfn undanfarin 10 ár. Núna hefur félagið einnig hafið framleiðslu á Lifandi Kúfskel sem seld er til Evrópu í litlum mæli enn sem komið er, en markaðsvinna er í gangi. Afurðin hefur fengið góða dóma bæði hér heima og erlendis.
Kúfskel er mjög próteinrík fæða og með lágt fituinnihald, hún er rík af margskonar vítamínum og omega 3. Kúfskelin er veidd í mjög hreinum sjó við norðaustur strönd Íslands og er mjög strangt eftirlit með öllum þáttum í veiði og vinnsluferlum. Kúfskel er mjög áhugaverður kostur fyrir þá sem velja holla, bragðgóða og einstaka fæðu.
Hægt er að nálgast nánari upplýsingar á heimasíðu félagsins: www.maredis.is og í síma 460-8100 hjá Siggeiri Stefánssyni.