Ísfélagskipin tvö
8.Febrúar 2008
Fjárfesting upp á fjóra milljarða kr.
Þetta er gríðarleg fjárfesting, upp á um fjóra milljarða, en við ákváðum að láta á þetta reyna. Við gerum núna út fimm uppsjávarskip, þar af tvö frystiskip en við viljum frekar eiga færri og öflugri skip, segir Ægir Páll Friðbertsson framkvæmdastjóri Ísfélags Vestmannaeyja um þá ákvörðun að láta smíða annað uppsjávarskip sömu gerðar og það sem samið var um síðastliðið haust.
Það er auðvitað komin tími á endurnýjun á flota Ísfélagsins en um leið erum við að styrkja landsvinnsluna því betur búin skip koma væntanlega með betri afla að landi," segir Ægir Páll í viðtali við blaðið Vaktina í Eyjum.
Milligöngu um gerð smíðasamnings og smíðalýsingar hafði umboðsmaður Asmar á Íslandi, BP skip hf - Björgvin Ólafsson og Héðinn hf, umboðsaðili fyrir Rolls Royes á Íslandi. Skipin tvö eru eins að öllu leyti en það er Rolls Royce í Noregi sem hannar þau.
Norska skipið Knester er fyrirmyndin en forráðamenn Ísfélagsins skoðuðu skipið áður en smíðasamningurinn var undirritaður á sínum tíma. Skipin eru 71 metri að lengd og rúmlega 14 metra breið. Burðargeta þeirra verður um 2000 tonn, í tíu tönkum útbúnum öflugum RSW kælingu. Skipin verða bæði útbúin til nóta og flottrollsveiða.
Suðurland.is skýrði frá þessu.