Jóla- og áramótahugvekja frá sveitarstjórn Langanesbyggðar
Nú höfum við gengið frá Fjárhagsáætlun ársins 2025 og þriggja ára áætlun fyrir árin 2026-2028.
Áætlaðar fjárfestingar á árinu 2025 eru tæpar 330 milljónir. Stærst er ca 160 fermetra viðbygging við Naust sem ætlunin er að gera fokhelda á árinu 2025 og síðan til innréttingar á árinu 2026. Þá verður c.a. 90 milljónum varið í endurbætur á lóðum bæði við grunnskóla og leikskóla. Einnig eru margvísleg verkefni hjá hinum ýmsu deildum okkar s.s. endurnýjun bifreiðar hjá slökkviliði, lagfæringar á sparkvelli, gangstéttar og fl. Þá verður sorphúsið væntanlega tekið í notkun á árinu 2025 og um 20 milljónir eru áætlaðar í tækjakaup og koma því í virkni.
Það er ánægjuefni að sjá að íbúar okkar eru farnir að byggja íbúðarhús, en nú eru tvö ný íbúðarhús komin undir þak á Þórshöfn, lóðum hefur verið verið úthlutað undir 6 aðrar íbúðir. En það hefur helst staðið fjölgun íbúa fyrir þrifum að skortur hefur verið á húsnæði. En nú stendur íbúatala okkar í 604 einstaklingum samkvæmt talningu þjóðskrár.
Ef aldursdreifing íbúa er skoðuð sést að stærsta verkefnið okkar er að fjölga börnum í sveitarfélaginu, ásamt því að búa vel að stórum hópum eldri borgara í sveitarfélaginu og þeim sem þjóna þeim.
Það er keppikefli að búa að betra umhverfi bæði í leik og starfi sem víðast, án þess þó að senda kostnaðinn við það inn í framtíðina. Hver kynslóð þarf að reka sitt samfélag. Með fjárhagsáætlun 2025 þá telst okkur að fjárfestingar síðustu ára hafa verið rétt um 440 milljónir. Það hefur verið ákveðið að taka nýtt langtímalán að fjárhæð 150 milljónir, það leiðir til þess að langtímaskuldir frá árinu 2022 aukast um 66 milljónir, sem gefur okkur að einungis um 15% af fjárfestingum tímabilsins eru fjármagnaðar með lántöku. Á sama tíma hefur tekist að lækka fjármagnsgjöld um 43 milljónir á ári.
Það er vert að hafa í huga að bilið á milli tekna og gjalda minnkar í áætlun ársins 2025 sem segir okkur að gæta þarf varúðar varðandi frekari útgjöld. En við vitum að nokkuð stór fjárfestingarverkefni bíða okkar s.s. endurbætur á íþróttahúsinu okkar, fráveituframkvæmdir, gatnagerð og margt fleira sem óskandi væri að gera.
Allt segir þetta okkur að mikilvægt sé að hlúa að íbúum okkar og atvinnutækifærum til að styrkja tekjugrunn sveitasjóðs. En þar eru útsvarstekjur íbúa okkar ein af stærstu tekjustoðunum og undirstaða þeirra eru atvinnutekjur.
Innan sveitarstjórnar hefur verið unnið að stjórnsýsluúttekt með það að markmiði að bæta og laga verklag, endurskoða skipulag sveitarstjórnarstarfsins og fá fram tillögur að betra vinnulagi. Sú vinna er í gangi og vonandi verða tillögur til úrbóta komnar fram fljótlega á nýju ári. En hluti af þeirri vinnu er að fullgera þjónustustefnu Langanesbyggðar, en hún á að vera heildstætt yfirlit um það hverrar þjónustu íbúar eiga rétt á af hendi sveitarfélagsins.
Sorphúsið kemst vonandi í gagnið á nýju ári, og þá er viðbúið að breytingar verði á sorphirðu og mun það sjást í þeim kostnaði sem málaflokkurinn krefst og við þurfum að nálgast það enn frekar að láta gjöldin standa undir þeim kostnaði sem fellur til.
Hvernig leggja skal mat á hvort vel gangi eða verr, verður alltaf að talsverðu leyti matskennt. En það er ekki laust við að stundum læðist að okkur að við megum vera nokkuð bjartsýn á framtíðina, má þar m.a. nefna að;
- Skólarnir okkur útskrifa sterk ungmenni
- Aðsókn að íþróttahúsi hefur aukist ásamt aukningu á íþróttastarfi
- Félagsstarf eldriborgara og ungmenna er vaxandi
- Atvinnurekendur eru í fjárfestingum
- Íbúðarhús rísa
- Áhugi á umhverfismálum er mikill
- Áhugi á orkuframleiðslu er til staðar
- Eftirspurn er eftir aðstöðu í Kistunni
- Hækkandi menntunarstig í fræðslumálum.
- Öll heimili og vinnustaðir eiga kost á ljósleiðaratengingu.
- Gróska í nýsköpun og menningarstarfi
Fulltrúar ykkar í sveitarstjórn ganga því ágætlega bjartsýnir til móts við jól og sólstöður, hlakka til áframhaldandi starfa í ykkar þágu á komandi ári. Megi hátíðarnar verða gleðilegar, munum eftir okkar minnstu bræðrum og systrum. Farsælt nýtt ár.
Þess óska fulltrúar ykkar í sveitarstjórn.
Fyrir hönd Betri byggðar
Sigurður Þór Guðmundsson
Fyrir hönd Framtíðarlistans
Júlíus Þröstur Sigurbjartsson