Fara í efni

Landbúnaðarnefnd:

Aðalmenn:Reimar Sigurjónsson, formaðurSigríður M. GamalíasdóttirÆvar Rafn MarinóssonKristján IndriðasonHafliði JónssonVaramenn:Indriði ÞóroddssonJónas LárussonSverrir MöllerKrzysztof KrawczykGunnlaugu

Aðalmenn:
Reimar Sigurjónsson, formaður
Sigríður M. Gamalíasdóttir
Ævar Rafn Marinósson
Kristján Indriðason
Hafliði Jónsson
Varamenn:
Indriði Þóroddsson
Jónas Lárusson
Sverrir Möller
Krzysztof Krawczyk
Gunnlaugur Ólafsson

Erindisbréf í nánar.

ERINDISBRÉF

FYRIR

LANDBÚNAÐARNEFND LANGANESBYGGÐAR

I. Kafli
Umboð og hlutverk


1.gr.

Landbúnaðarnefnd Langanesbyggðar er skipuð af sveitarstjórn Langanesbyggðar og fer hún í umboði sveitarstjórnar með þau landbúnaðar- og jarðamál sem henni eru falin eins og nánar er kveðið á um í erindisbréfi þessu.

2.gr.

Landbúnaðarnefnd Langanesbyggðar er skipuð fimm fulltrúum og jafn mörgum til vara. Kjörtímabil fulltrúa miðast við kosningar til sveitarstjórnar. Á fyrsta fundi nefndarinnar fer fram kjör formanns, varaformanns og ritara.

3.gr.

Hlutverk landbúnaðarnefndar Langanesbyggðar er að fara með málefni landbúnaðar í sveitarfélaginu. Landbúnaðarnefnd sér um að lögum og reglugerðum um málefni landbúnaðar sé framfylgt þeirra sem er hlutverk sveitarstjórnar en ekki annarra að framfylgja. Einnig sér hún um landnýtingu á því sviði og skal vera ráðgefandi til sveitarstjórnar um þau mál.

4.gr.

Landbúnaðarnefnd fer með málefni forðagæslu og búfjáreftirlits. Landbúnaðarnefnd fer með afréttarmál og heyra undir hana fjallskilanefndir eystri og vestri. Einnig fjallar nefndin um eyðingu refa, minka og vargfugls.

5.gr.

Landbúnaðarnefnd sinnir að öðru leyti þeim verkefnum er sveitarstjórn felur henni eða nefndin telur að til bóta horfi í landbúnaðar- og landnýtingarmálum. Nefndin skal kosta kapps um að hafa samstarf við atvinnumálanefnd, umhverfis-, skipulags- og byggingarnefnd og heilbrigðiseftirlit og þá aðila sem stuðla vilja að umbótum í þessum málaflokkum í sveitarfélaginu.

6.gr.

Landbúnaðarnefnd skal fjalla um legu reiðstíga og gera tillögur að forgangsröðun þeirra.

7.gr.

Landbúnaðarnefnd setur fram ef ástæða er til ábendingar um ný rekstrar- og framkvæmdarverkefni á sínu sviði fyrir lok október ár hvert og skal fá til umsagnar við gerð fjárhagsáætlunar tillögur um allar stærri framkvæmdir sem tengjast hennar verksviði.

8.gr.

Ákvarðanir landbúnaðarnefndar Langanesbyggðar taka formlega gildi við samhljóða staðfestingu sveitarstjórnar en að öðrum kosti með staðfestingu sveitarstjórnar. Nefndin skal vinna á grundvelli þeirra almennu markmiða sem sveitarstjórn setur hverju sinni.

II. Kafli
Fundir og starfshættir


9.gr.

Formaður boðar fundi landbúnaðarnefndar. Nefndin heldur fundi þegar verkefni liggja fyrir en þó eigi sjaldnar en ársfjórðungslega. Skylt er að boða til fundar ef meirihluti aðalmanna í nefndinni æskir þess.

10.gr.

Til fundar telst löglega boðað hafi allir nefndarmenn eða varamenn í forföllum aðalmanna svo og aðrir sem seturétt eiga á fundinum verið boðaðir með a.m.k. tveggja sólarhringa fyrirvara og þeim jafnframt greint frá dagskrá fundarins. Að jafnaði skal boðað til funda með skriflegu fundarboði og því skal fylgja afrit þeirra erinda sem til umfjöllunar eru. Komi upp mál sem krefst skjótrar úrlausnar landbúnaðarnefndar getur fyrirvari um fundarboðun verið skemmri.

11.gr.

Landbúnaðarnefnd getur enga samþykkt eða ályktun gert nema meirihluti hennar sitji fund. Tillaga fellur á jöfnum atkvæðum. Nefndarmaður hefur ekki atkvæðisrétt um mál sem varða hann sjálfan eða náið skyldmenni hans og skal hann í slíkum tilvikum víkja af fundi. Um hæfi nefndarmanna fer eftir ákvæðum 19.gr. sveitarstjórnarlaga. Þeir sem sitja fundi nefndarinnar skulu gæta fyllsta trúnaðar um þau einkamál er rædd kunna að vera á fundum. Þagnarskylda helst þó látið sé af störfum.

12.gr.

Rita skal fundargerðir nefndarinnar í sérstaka fundargerðarbók eða tölvuskrá þær skv. gildandi reglum sem sveitarstjórn setur. Í fundargerð skal skrá hvar og hvenær fundir eru haldnir og hvenær þeim er slitið. Allar tillögur sem fram eru bornar skulu skráðar svo og samþykktir og ályktanir landbúnaðarnefndar og skulu allir viðstaddir undirrita fundargerðina. Fundargerðarbók, afrit af skýrslum, sendibréfum og skjölum landbúnaðarnefndar, lög, reglugerðir er varða nefndina svo og erindisbréf skulu vera tiltæk á öruggum stað á skrifstofu Langanesbyggðar á Þórshöfn eða á þjónustuskrifstofu sveitarfélagsins á Bakkafirði.

III. Kafli
Markmið og verkaskipting


13. gr.

Markmið nefndarinnar er að stuðla að möguleika á blómlegum landbúnaði innan Langanesbyggðar ásamt tækifærum fyrir þá sem vilja stunda húsdýrahald sem tómstundagaman, svo sem hestamennsku.

14.gr.

Sjálfbær landnýting skal ávallt höfð að markmiði þannig að ekki sé gengið á auðlindir landsins eða því spillt fyrir skammtíma hagsmuni. Stuðlað skal að því að íbúar Langanesbyggðar fái allir sömu möguleika til nýtingar landssvæða sem eru í eigu sveitarfélagsins þannig að jafnræði ríki meðal þeirra á því sviði.

15.gr.

Nefndin skal leitast við að ná því grundvallarmarkmiði að tryggja að ákvarðanir hennar og vinna skuli fyrst og fremst vera í þágu allra íbúa sveitarfélagsins sem leggur þær skyldur á herðar fulltrúum í nefndinni að setja ávallt almannahagsmuni ofar sérhagsmunum hvort heldur er sínum eigin eða einstakra hópa.

IV. Kafli
Gildistaka


16. gr.

Erindisbréf þetta byggist á ákvæðum sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 um verkefni sveitarfélaga og starfsemi nefnda á þeirra vegum, stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og samþykkt um stjórn og fundarsköp fyrir Langanesbyggð. Erindisbréf þetta hefur verið samþykkt í sveitarstjórn Langanesbyggðar og tekur gildi 17. desember 2008.



Þórshöfn, 17. desember 2008


Sveitarstjóri Langanesbyggðar