Langanesbyggð auglýsir starf umhverfisfulltrúa laust til umsóknar.
Miklar breytingar eru að verða á skipulagi umhverfis- og sorpmála sveitarfélaga vegna gildistöku nýrra laga um móttöku og meðhöndlun úrgangs frá sveitarfélögum. Einnig leggur sveitarfélagið Langanesbyggð áherslu á góða umgengni í þéttbýli og viðkvæmri náttúru og dreifbýli í víðfeðmu sveitarfélagi.
Íbúar í Langanesbyggð eru nú um 600 og sveitarfélagið er um 2490 km2. Flest öll þjónusta er til staðar á Þórshöfn s.s. pósthús, verslun, banki, verkstæði og flugvöllur en flogið er til og frá Þórshöfn 5 sinnum í viku til Akureyrar. Á Þórshöfn er einnig og þróunar og þekkingarsetur sem ber nafnið Kistan.
Sveitarfélagið Langanesbyggð auglýsir starf umhverfisfulltrúa laust til umsóknar.
Hlutverk umhverfisfulltrúa verður m.a.:
- Að vera tengiliður og vinna í samstarfi við hönnuði við byggingu nýrrar móttökustöðvar sorps á Þórshöfn.
- Að sjá um rekstur nýrrar móttökustöðvar sorps sem áætlað er að taki til starfa sumarið 2024.
- Að sjá um skipulagt geymslusvæði gáma og annarra hluta sem sveitarfélagið rekur.
- Að gera og halda við skrá yfir gáma og aðra hluti sem geymdir eru utan skipulagðra geymslusvæða í sveitarfélaginu.
- Að sjá um og koma á framfæri ábendingum um betri umgengni og umhirðu lóða og svæða, bæði í einkaeigu og í eigu sveitarfélagsins.
- Að sjá um framkvæmdir við umhirðu lóða og opinberra svæða í sveitarfélaginu í samvinnu við Þjónustumiðstöð.
- Að sjá um samskipti við verktaka sem hirða sorp í sveitarfélaginu (á Þórshöfn, á Bakkafirði og í dreifbýli)
- Önnur þau verk sem umhverfisfulltrúa kunna að verða falin af sveitarstjóra eða skipulags- og umhverfisnefnd Langanesbyggðar.
Umhverfisfulltrúi heyrir beint undir sveitarstjóra í samstarfi við Þjónustumiðstöð Langanesbyggðar.
Menntun, reynsla og þekking:
- Ekki er gerð sérstök krafa um menntun eða reynslu en iðnmenntun eða góð þekking á umhverfismálum er mikill kostur.
- Góð þekking á staðháttum og umhverfi í sveitarfélaginu Langanesbyggð er einnig mikill kostur í starfi.
- Mikil áhersla er lögð á góða samskiptahæfni, jákvæðni og þjónustulund.
- Öguð og skipulögð vinnubrögð og lausnarmiðað hugarfar.
Laun og starfskjör samkvæmt kjarasamningum viðkomandi stéttarfélags.
Umsókn með kynningarbréfi og ferilskrá sendist til sveitarstjóra, Björns S. Lárussonar á netfangið bjorn@langanesbyggd.is fyrir 14. nóvember.
Björn S. Lárusson
Sveitarstjóri