Langanesbyggð í kastljósi fjölmiðlanna
Kastljós fjölmiðlanna hefur heldur betur beinst að Langanesbyggð að undanförnu og virðist sem að þeir sem stjórna frétta- og upplýsingaflæði til landsmanna séu nú loks að átta sig á að hér úti við ysta haf leynist litskrúðugt og fjölbreytt mannlíf sem vert er að gefa gaum.
Frétta- og þjóðlífsþátturinn Landinn fjallaði myndarlega um möguleika á olíuleit við Ísland og hugsanlega þjónustu við starfsemina á Norðausturhorni landsins en þar kemur Langanesbyggð heldur betur við sögu. Fréttastofa RÚV ræddi auk þess við forsvarsmenn Ísfélagsins á Þórshöfn vegna umfangsmikilla framkvæmda við frystihúsið. Einnig var rætt við Gunnólf Lárusson, sveitarstjóra, vegna nýju íbúðanna í Miðholti og sjónvarpmenn litu við á Nausti og fjölluðu um rausnarleg tilboð á hádegisverði á þriðjudögum í þeirri viðleitni að auka aðsókn á heimilið.