Fara í efni

Langanesbyggð sækir Finnland heim

Fréttir

Dagana 11.-15. nóvember ferðaðist sveitarstjórn Langanesbyggðar til Norð-austurbotns Finnlands, til að kynna sér þróun vindorkuvera á þessum norðlægu slóðum og skoða hvaða áhrif sú uppbygging hefur haft á samfélög þar. Ferðin var skipulögð í samstarfi við sendiráð Íslands í Finnlandi og tók sendiherrann, Harald Aspelund, á móti hópnum og fylgdi honum hluta ferðarinnar. Markmið fararinnar var að efla þekkingu og skilning á vindorku og framleiðslu rafeldsneytis og möguleikum þess.

Fyrsta stopp var heimsókn til vindorkuversins Karhunnevankangas. Þar skoðaði hópurinn aðstæður og starfsmáta, ræddi við landeigendur og starfsmenn vindorkuveranna, og fékk að heyra reynslusögur þeirra sem hafa komið að uppbyggingu vindorku. Sú heimsókn veitti sannarlega dýrmæta innsýn í hvernig vindorkuver eru rekin og viðhaldið, auk þess að gefa mynd af þeirri stjórnsýslu og skipulagi sem fylgir slíkum verkefnum. Á þessu svæði hefur vindorkan augsýnilega haft áhrif ekki bara á orkuöflun, heldur líka á atvinnumál, með því að skapa ný störf og styðja við nýjar atvinnugreinar.

Hópurinn heimsótti einnig Business Oulu, sem og borgarstjórn Oulu og orkufyrirtæki þeirra Oulun Energia. Þar var fræðst um metnaðarfulla uppbyggingu sem snýr að framleiðslu rafeldsneytis á komandi árum. Slík framleiðsla er hluti af stærri vegferð Finna í að fasa út jarðefnaeldsneyti. Vindorkan, sem og aðrar ómengandi orkuöflunaraðferðir, eru að sjálfsögðu lykilþáttur í því að sá iðnaður þróist á þann hátt að orkan sé græn og að markmið um minni kolefnisútblástur náist.

Það er ljóst að sveitarfélögin sem hópurinn heimsótti hafa lagt í mikla vinnu og fjárfestingar og eru leiðandi í Finnlandi á sviði vindorku, og hafa skýr áform um nýtingu hennar til atvinnuuppbyggingar sem mætir bæði umhverfislegum áskorunum og þörfum íbúa. Það er afskaplega verðmætt fyrir íslenskt sveitarstjórnarfólk að geta leitað í þekkingu og viskubanka norrænna starfssystkina sinna, enda voru allar móttökur til einstakrar fyrirmyndar hjá frændum okkar Finnum.