Langanesbyggð tekur að sér rekstur Þórshafnarflugvallar
Flugstoðir og Langanesbyggð hafa gert með sér þjónustusamning um rekstur Þórshafnarflugvallar. Var hann undirritaður í samgönguráðuneytinu í gær og staðfesti Kristján L. Möller samninginn með undirritun sinni.
Langanesbyggð tekur að sér framkvæmd og umhirðu við flugbraut, stæði og öryggissvæði flugvallarins svo og viðhald á tækjum og búnaði og umsjón með fasteignum og öðrum búnaði Flugstoða á Þórshafnarflugvelli. Flugstoðir greiða Langanesbyggð fyrir þessa verkþætti samkvæmt nánari skilgreiningu í samningnum.
Samningurinn gildir til ársloka en framlengist þá óbreyttur til ársloka 2012 nema annar hvor aðilinn geri við hann athugasemdir fyrir 1. október í ár. Undir samninginn skrifuðu Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Langanesbyggðar, og Ólafur Sveinsson, stjórnarformaður Flugstoða. Kristján L. Möller samgönguráðherra staðfesti samninginn og vottar voru Róbert Marshall, aðstoðarmaður ráðherra, og Haukur Hauksson, framkvæmdastjóri hjá Flugstoðum.