Fara í efni

Langanesbyggð tilnefnir Grunnskólann á Bakkafirði til nýsköpunarverðlauna

Fréttir
Uppstilling fyrir vinnustofuskil
Uppstilling fyrir vinnustofuskil
Í Grunnskólanum á Bakkafirði hafa kennarar þróað skapandi kennsluaðferð sem felst í að nemendur taka aukna ábyrgð á eigin námi, ásamt því að sköpunargáfa og hugmyndarflug fái að njóta sín, lýðræði er aukið sem og fólk í samfélaginu fær aukna innsýn í skólastafið.

Í Grunnskólanum á Bakkafirði hafa kennarar þróað skapandi kennsluaðferð sem felst í að nemendur taka aukna ábyrgð á eigin námi, ásamt því að sköpunargáfa og hugmyndarflug fái að njóta sín, lýðræði er aukið sem og fólk í samfélaginu fær aukna innsýn í skólastafið.

Sveitarstjórn Langanesbyggðar ákvað á fundi 13.nóv síðastliðinn að tilnefna Grunnskólann á Bakkafirði til nýsköpunarverðlauna í opinberri þjónustu og stjórnsýslu fyrir verkefnið sem kallast "vinnustofur - fjölbreyttir kennsluhættir og nýsköpun". 

Verkefnið hefur víða hlotið athygli og er gjarnan talað um Bakkafjarðarmódelið í því samhengi.

María og Bylgja, sem halda utan um verkefnið, hafa verið beðnar um að kynna vinnustofuverkefnið á ráðstefnum um skólamál og í einstaka skólum og ákvað m.a. Vopnafjarðarskóli að innleiða þetta verkefni þar eftir kynningu. Einnig hefur Ingvar Sigurgeirsson prófessor við HÍ og ráðgjafi sveitarfélagsins í skólamálum mikið fjallað um vinnustofuverkefnið út á við og birtist m.a. grein um það í Netlu - veftímariti um uppeldi og menntun. /HS

Greinina í Netlu má sjá hér: http://netla.hi.is/greinar/2013/alm/003.pdf

Hér má sjá nokkrar myndir af starfinu en þær eru teknar af heimasíðu skólans; http://bakkafjordur.wordpress.com/

Fyrir neðan myndirnar eru nánari uppýsingar um vinnustofurnar, hver hvatinn var, hvernig var staðið að framkvæmd og hver ávinningurinn er. /HS

 

 

Hver var hvatinn að verkefninu?
Kveikjan var sú að kennurum í Grunnskólanum á Bakkfirði fannst bækur stjórna kennslu of 
mikið ásamt því að í ljós kom að utanbókarlærdómur skilaði ekki þeirri þekkingu sem ætlast 
var til. Það var haustið 2012 sem kennslan var skipulögð með öðrum hætti en hafði verið og 
var meginmarkmiðið að nemendur tækju meiri ábyrgð á eigin námi. Á stundaskrá voru settar
svonefndar vinnustofur, alls ellefu í hverri viku eða um þriðjungur kennslustunda. Í þessum 
tímum skyldu nemendur fást við heildstæð, samþætt viðfangsefni, einir eða í hópum.
Viðfangsefni tengjast samfélagsgreinum og náttúrufræði.


Hvernig var verkefninu hrint í framkvæmd?
Í upphafi funduðu kennarar með nemendum þar sem leitast var við að fá fram hugmyndir 
þeirra um viðfangsefni. Nemendur voru beðnir um að nefna allt sem þeim þætti gagnlegt að 
vita um náttúrufræði, samfélagsfræði og landafræði. Margar hugmyndir komu fram sem 
síðan voru ræddar og flokkaðar og segja má að þarna hafi nemendur lagt drög að sinni eigin 
námskrá. Einnig fengu nemendur að vita að þeir fengju sjálfir að ráða viðfangsefninu í annað 
hvert skipi. Ákveðið var í upphafi að hver lota tæki þrjár til fjórar vikur og endaði á skilum
þar sem foreldrum og gestum er boðið á kaffihús þar sem nemendur kynna verkefnin sín, 
hver með sínum hætti.

Hver var ávinningur verkefnisins?
Vinnustofurnar voru í upphafi ætlaðar elstu deild skólans en nú hafa þær teygt sig niður í 5.
bekk. Mikil áhersla er lögð á list og verkgreinar í skólanum og fléttast þær greinar inn í 
vinnustofurnar eða vinnustofunar inn í þær greinar. Nemendur hafa aðgang að list- og
verkgreinastofu meðan unnið er í vinnustofum. Verkefnið hefur farið fram úr björtustu 
vonum, mikill áhugi og metnaður er hjá nemendum og mikil sköpun í gangi.
Í mörgum tilvikum ákveða nemendur að tengja viðfangsefnin við miðlun og skapandi 
vinnu með lifandi flutningi, myndrænni tjáningu, leikþáttum, kvikmyndagerð og sýningum. 
Eins og fyrr segir skila nemendur verkefnum af sér á opinni kynningu, á kaffihúsi sem þau 
setja upp í skólanum og bjóða foreldum og öðru heimafólki að koma og hlusta á kynningar, 
sjá sýningar eða allt það sem þau hafa upp á að bjóða.
Kennarar meta flutning nemenda á kynningum og vinnu þeirra í kennslustundum. Þau meta sig svo sjálf eftir kynningu.


Bein tenging er við Aðalnámskrá grunnskóla þar sem nemendur:
 læra að tjá sig og koma fram
 læra að miðla þekkingu sinni
 beita gagnrýnninni hugsun
 vinna sjálfstætt og í samstarfi við aðra
 flytja mál sitt
 nýta margvíslega miðla í þekkingarleit, úrvinnslu og miðlun
 bera ábyrgð á eigin námi og leggja mat á eigin vinnubrögð og frammistöðu

Niðurstöður Skólapúlsins sýna að nemendur í Grunnskólanum á Bakkafirði eru ánægðari en 
áður og jákvæðari í garð samfélags- og náttúrufræði, nemendur telja einnig að á þá sé 
hlustað, kennnari sé alltaf til staðar og þeir eigi auðvelt með að fá aðstoð.