Langnesingar (og Þistlar) allra landa!
9.september 2008
Ég finn mig knúinn til að svara kalli og áskorun Ölvers, vinar míns, um að leggja hér orð í belg. Þar kemur margt til. Ég er nýkominn að "heiman", dvaldi nokkra góða daga á Langanesi (og Þistilfiði) fyrir skömmu og ég verð að segja eins og er að mér hefur aldrei fundist þorpið mitt vera fallegra. Það er greinilegur hugur í þorpsbúum og þar iðar allt af lífi, höfnin smekkfull af skipum upp á hvern dag og rúnturinn öflugur sem aldrei fyrr. Verra þótti mér hinsvegar að fá ekki einu sinni marhnút við bryggjuna, nokkuð sem var óbrigðult þegar ég var ungur, rétt eins og sólin kemur upp á hverjum morgni. Kannski er kvótakerfinu um að kenna? Ég vil líka taka undir orð Kolbeins kapteins hér að neðan. Það eru svo sannarlega réttmælt hjá honum að hinar sönnu hetjur eru þær sem voru um kyrrt í "Paradís". Kannski eru þeir samt hugrakkari sem fóru en koma aftur!
Ég treysti mér aftur á móti ekki í þrætur við Ölver um ágæti Langnesinga umfram Þistla............
Um ágæti Langnesinga þarf svo sem ekki að fjölyrða og mér hefur sýnst Þistlar vera hið besta fólk líka. Það má vel vera rétt hjá Ölveri að það fyrirfinnist ekki mörg skáld í framætt minni, a.m.k. fá sem eitthvað liggur eftir opinberlega. Hinsvegar langar mig að láta hér fylgja með pistil sem ég skrifaði fyrir margt löngu um skáldskap í heimabyggðinni:
Það er alkunna að Langanesbyggð hefur ekki farið varhluta af yfirreið skáldafáksins. Þar hafa verið sett saman mörg ódauðleg meistarverk, sem þó aldrei hafa fengið að njóta sannmælis meðal hinna sjálfskipuðu menningarforkólfa í henni Reykjavík fyrir sunnan. Mér hafa áskotnast tvær vísur sem myndu einmitt falla í þennan meistarflokk en þær munu báðar vera ortar af brottfluttum Þórshafnarbúum fyrir margt löngu. Vísur þessar eru ekki aðeins undurfagrar út frá listrænu sjónarmiði, heldur einnig góð heimild um menningarlíf á Langanesi hér á árum áður og gefa góða innsýn í tíðaranda samfélagsins fyrrum. Vísurnar gefa heilsteypta mynd af stöðu einstaklingsins í sveitasamfélaginu og um leið vangaveltum hans á umhleypingatímum, þar sem einangrun kallast á við útþenslu og stöðnuð gildi hverfast í síbreytilegum exístensíalískum viðhorfum, rómantík vs. firring, sósíalismi vs. kapitalismi, uppreisn!
Ég hef fyrri, og eldri, vísuna frá fyrstu hendi, en annar af tveimur höfundum hennar fór með hana fyrir mig fyrir margt löngu og skýrði hana með tillti til aðstæðna. Hún mun vera ort skammt frá Felli á Langanesströnd, í Land Rover jeppa (hvítum að ofan, bláum að neðan), sem var að flytja hóp ungmenna frá Þórshöfn á ball á Bakkafjörð. Það kemur kannski yrkisefninu ekki við en bíllinn var þeim kostum gæddur að aftur í honum var hægt að lyfta upp einni setunni, undir henni var gat og þar gengu stúlkur gjarnan örna sinna á langferðum og létu gossa beint niður á drifskaftið, svo ég vitni nú beint í annan höfundinn. Vísan þykir mér lýsa viðhorfum skáldanna tveggja (en þeirra verður ekki getið hér í samræmi við höfundarréttarlög) til samfélagsaðstæðna á 6. og 7. áratugnum, um leið og þeir lýsa frati á ríkjandi gildi í fastmótuðu lögreglusamfélaginu.
En vísan er svona, orðrétt höfð eftir öðrum höfundanna:
Stendur hvítur hestur hér
og horfir á eftir okkur.
Honum mun langa á Bakkafjörð
en þar fær hann ekki aðgang.
Hin vísan er af allt öðrum toga. Höfundur er ekki þekktur. Ég hef þó undir höndum nokkuð áreiðanlegar heimildir um hver höfundurinn kann að vera en á þessu stigi málsins þykir mér ekki ástæða til að upplýsa það, enda textarannsókn á frumstigi. Vísuna má kalla náttúrukveðskap, óð til þess villta í nátturunni, með nokkuð tvíræðnum erótískum hendingum.
Vísan er svona:
Eitt sinn átti ég hreindýr
og reið því í hel.
Þetta eru ekki greind dýr
en þau ríða vel.
Svo mörg voru þau orð. Og af því að Ölver minnist á nýja veginn yfir Sléttu, þá langar mig að láta hér fljóta með pistil sem ég birti eitt sinn á öðrum vettvangi. Hann á kannski ekki vel við einmitt nú þegar framkvæmdir á Sléttu eru vel á veg komnar, enda var hann skrifaður þegar útlit var fyrir að framkvæmdunum yrði frestað til að slá á þensluáhrif. Það hugnaðist mér, og spúsu minni, afar illa og skrifuðum því þessa stuðningsyfirlýsingu við Byggðaráð Langanesbyggðar:
Ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að fresta vegaframkvæmdum á landsbyggðinni til að slá á þensluáhrif. Þetta fréttum við alla leið til Dossenheim. Fyrst í stað hugsuðum við sem svo að okkur gæti ekki verið meira sama. Síðan urðu okkar ljósar afleiðingarnar: Þetta þýðir að frestað verður framkvæmdum vegna svokallaðrar Hófaskarðsleiðar, sem átti að leysa af hólmi Öxarfjarðarheiðina sem maður hefur þurft að flengjast yfir mörgum sinnum á ári alla sína hunds- og kattartíð. Og þá var okkur hjónakornunum nóg boðið. Sérstaklega er húsfrúin í uppnámi vegna þessa. Öxarfjarðarheiðin er ekki uppáhalds ferðaleiðin hennar. Þó hún sé reyndar snöktum skárri en Melrakkasléttan. Við tökum heilshugar undir áskorun Byggðaráðs Langanesbyggðar til ríkisstjórnarinnar um að hún sjái að sér og veri ekki með þessa helvítis vitleysu.
Fyrir þá sem ekki vita er Öxarfjarðarheiðin vegspotti þvert yfir Melrakkasléttu og styttir mjög leiðina til og frá Þórshöfn þegar farin er norðurleiðin. Þessi leið er venjulega farin til að komast hjá því að keyra fyrir sjálfa Melrakkasléttuna en sú leið er löng, ljót, leiðinleg og illa lyktandi. Öxarfjarðarheiðin hinsvegar styttir leiðina til muna, í kílómetrum talið. Hún sparar mönnum aftur á móti ekki margar mínútur. Það er nefnilega hæpið að kalla megi Öxarfjarðarheiðina akveg. Í raun er aðeins um seinfarin troðning að ræða, sem liggur með bugðum og beygjum um óbyggðirnar. Löngum hafa ferðalangar velt vöngum yfir því hvers vegna vegurinn yfir Öxarfjarðarheiði er eins og hann er. Oft hafa menn leitt líkum að því að starfsmenn Vegagerðar Ríkisins hafi verið sótdrukknir þegar þeir völdu vegastæðið á sínum tíma en sú kenning kolfellur vitanlega um sjálfa sig því það er útilokað að nokkrum manni, fullum eða ófullum, hafi dottið í hug að leggja veg með þessum hætti. Nei, Öxarfjarðarheiðin er gömul fjárgata, sem sauðfé tróð á rangli sínu um heiðina í gegnum aldirnar. Síðan hafa bændur til forna byrjað að nota stíginn til að rata moldfullir til byggða í illviðrum og smám saman hefur aukist umferðin um þessa slóð uns sú ranghugmynd varð til að um eiginlegan akveg væri að ræða.
Það hafa margir ælt á Öxarfjarðarheiði, því að krappar beygjur í þúsundatali, þvottabretti og hyldjúpar holur ofbjóða iðrunum sem fara þá iðulega á rönguna. Ekki bætir úr skák þegar moldin í veginum fýkur upp í þurrkum, smýgur inn í bíla og upp í vit manna. Það sem þó hefur orðið mörgum til heilsubótar á Öxarfjarðarheiði er að á miðri heiðinni þarf að aka yfir lækjarsprænu, óbrúaða að sjálfsögðu, sem bjargar fólki um ferskvatn til að skola rykið og stærstu moldarhraukana úr kverkunum. Það má reyndar geta þess í framhjáhlaupi að þessi lækjarspræna gegndi á árum áður því burðarhlutverki að leggja til bland í landa sem fólk hafði meðferðis á leið sinni á böll í Skúlagarði eða á Ásbyrgismót. Þessi spræna hefur því löngum gengið undir nafninu Blanda. En nú er bara hægt að fá bændagistingu í Skúlagarði og Ásbyrgismótin eru orðin svo ungmennafélags að þar sér ekki vín á nokkrum manni. Þess vegna er enginn þörf á því lengur að aka á vanbúnum bílum yfir óbrúuð vatnsföll á leið sinni til og frá Þórshöfn. Blanda er barn síns tíma.
Það er með ólíkindum að fólki skuli árið 2006 ennþá vera boðið upp á að aka svona veg. Bjössi frændi var búinn að lofa Írisi að þegar hún kæmi næst í heimsókn til Þórshafnar skyldi hún aka um nýjan veg; beinan, breiðan og malbikaðan. Engar hossur, engar krappar beygjur, ekkert ryk. Ég hef heyrt af ferðafólki sem snéri við fljótlega eftir að það lagði á heiðina, vegna þess að það gat ekki með nokkru móti ímyndað sér að svona vegur lægi til mannabyggða. Það eru hin einu sönnu þensluárif Öxarfjarðarheiðar; að fæla burtu ferðafólk. En nei. Ríkisstjórninni finnst þenslan á norðausturhorninu keyra um þverbak. Það má ekki gera neitt til að auka á þensluna á norðausturhorninu. Er ekki í lagi heima hjá þessum mönnum? Það væri réttast að senda þá eina ferð yfir Öxarfjarðarheiðina. Við erum brjáluð
Kær kveðja,
Helgi Mar, Langnesingur