Lenti á rangri Þórshöfn
2. apríl 2008
Russell Trocano brá heldur betur í brún í gærmorgun þegar hann áttaði sig á að hann var staddur á flugvellinum á Þórshöfn á Langanesi en hann hafði á hinn bóginn talið sig vera á leið til Þórshafnar í Færeyjum.
Kunningi Russells hafði bókað fyrir hann ferðina á netinu en Russell flaug frá Bandaríkjunum og stóð til að hann færi frá Íslandi til Færeyja.
Í gærmorgun fór hann með flugi frá Reykjavík til Akureyrar og taldi sig vera að fara þaðan til Færeyja með viðkomu á Vopnafirði.
Töldu uppákomuna aprílgabb
Þegar mistökin urðu ljós vakti það nokkra kátínu á flugvellinum og gerðu menn því skóna að um væri að ræða aprílgabb hjá félaganum sem bókaði ferðina.
Russell fór með vélinni til baka til Akureyrar og hyggst sleppa Færeyjaferðinni og dvelja á Akureyri í nokkra daga áður en hann fer aftur til Bandaríkjanna.
Myndir: Hlynur Grétarsson |
Aðspurður sagði Russell að sér hefði ekki dottið annað í hug en hann væri á leið til Færeyja miðað við hvað flugið kostaði. Hann taldi að ekki gæti verið um að ræða svo dýrt far innanlands en farið frá Reykjavík til Þórshafnar kostaði hann 24.000 krónur.
Honum leist þó ekki á blikuna þegar hann steig upp í Twin Otter-vél Flugfélags Íslands sem hann hélt að ætti að flytja sig til Færeyja en sagði eftir ferðina að flugið hefði verið býsna skemmtilegt þrátt fyrir nokkra ókyrrð.
Russell sem er Bandaríkjamaður starfar sem lögfræðingur og hefur komið nokkrum sinnum til Íslands í tengslum við lögfræðistörf fyrir íslenska kunningja sína. Í þetta skiptið hugðist hann þó einungis millilenda hér á leið sinni til Færeyja.
Að sögn starfsmanna á flugvellinum á Akureyri hafa tilfelli sem þessi komið upp áður þó það sé ekki algengt.
Ferð til Grímseyjar sem sárabót
Þegar misskilningurinn um ferðaáætlun Russells Trocano varð ljós bauð starfsfólk Flugfélags Íslands honum í sárabætur að fljúga norður fyrir heimskautsbaug, til Grímseyjar, sem hann þáði með þökkum.á leið til Þórshafnar í Færeyjum. Meira
Eftir Hlyn Inga Grétarsson og Helgu Mattínu Björnsdóttur