Fara í efni

Líf og fjör við strandhreinsun

Fréttir
Hópur liðsmanna frá Ocean Missions
Hópur liðsmanna frá Ocean Missions

Síðastliðna helgi, dagana 12.-14. ágúst, vann hópur sjálfboðaliða að strandhreinsun á Langanesi. Að þessu sinni voru hreinsaðir um 2 kílómetrar, að mestu leiti fyrir landi Ytra-Lóns en einnig lítil spilda í landi Heiðarhafnar.

Það sem safnaðist var af ýmsum toga, allskonar ónýt veiðarfæri auk plastumbúða. Verkefnið í ár var framhald af samstarfi Langanesbyggðar og umhverfissamtakanna Ocean Missions frá því í fyrra en þá söfnuðust um fjögur tonn af rusli á álíka löngum kafla.

Umhverfissamtökin Ocean Missions gera út frá Húsavík en kjarna samtakanna mynda fræðimenn á ýmsum sviðum sjávarlíffræði auk áhugafólks um lífríki sjávar. Í janúar á þessu ári voru samtökin ein fjögurra til að hljóta styrk frá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu á grundvelli aðgerðar 17 í aðgerðaráætlun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins í plastmálefnum sem nefnist „Úr viðjum plastsins“.

Ásamt Langanesbyggð og Ocean Missions voru bakhjarlar strandhreinsunarinnar Ísfélag Vestmannaeyja og Íslenska Gámafélagið. Bæði fyrirtækin eru með myndarlega starfsemi í Langanesbyggð og veittu mikilvægan stuðning til verkefnisins. Loks bera að þakka íbúum að Ytra-Lóni, Heiðarhöfn og Hlíð fyrir gott samstarf og síðast en ekki síst öllum sjálfboðaliðum fyrir þeirra framlag.