Lokafrágangur í grunnskólanum
Það voru margar hendur að störfum í grunnskólanum á Þórshöfn í dag en þar hafa miklar endurbætur staðið yfir í sumar. Endurbætur á skólanum voru vissulega löngu tímabærar en þessar umfangsmiklu framkvæmdir komu til vegna viðvarandi myglusvepps sem fannst í flestum kennslurýmum skólans. Smiðir, rafvirkjar og aðrir iðnaðarmenn hafa unnið nótt sem nýtan dag í sumar til að hægt sé að klára fyrir haustið. Þá var einnig farið í að endurskipuleggja og stækka aðgengi í aðalinngangi skólans þannig að ýmsar góðar breytingar hafa komið til vegna þessara nauðsynlegu framkvæmda. Skólasetning verður miðvikudaginn 31. ágúst kl. 16 í Þórsveri og hefst því skólastarf á fimmtudaginn í skólanum. Kennarar, skólaliðar og starfsfólk vinna nú að því að gera klárt fyrir upphaf skólaársins. Henda þurfti miklu af gögnum og þvo það sem hægt var. Hér má sjá frétt Rúv um málið: http://www.ruv.is/sarpurinn/klippa/kostnadarsom-mygla-i-grunnskolanum-a-thorshofn