Máfahátíð á Húsavík
Máfahátíð verður í fyrsta skipti haldin á Húsavík dagana 9. til 10. mars nk. Það er Fuglastígur á Norðausturlandi sem stendur fyrir hátíðinni í samstarfi við ýmsa aðila. Henni er ætlað að vekja athygli á ríku fuglalífi Norðurlands/Íslands að vetri til og hvernig það getur nýst samfélaginu. Þetta er gert með viðburðum af ýmsu tagi og er kastljósinu beint að öllum fuglum, stórum jafnt sem smáum, vinsælum jafnt sem óvinsælum.
Leitast verður við að afhjúpa líf máfanna á hátíðinni og munu nemendur 5. bekkjar Borgarhólsskóla á Húsavík ríða á vaðið með þátttöku í útinámsverkefni tengdu alþjóðlegri rannsókn á máfum í Norður-Atlantshafi. Teymi máfasérfræðinga mun veiða þá í þar til gerðar gildrur við höfnina og setja litmerki á fætur þannig að hægt sé að fylgjast með ferðum þeirra og lífshlaupi. Þarna gefst nemendum og öðrum áhugasömum tækifæri á að skoða máfana í bak og fyrir. Yann Kolbeinsson, líffræðingur og fuglaskoðari, mun leggja til sína þekkingu.
Máfahátíðin er samstarfsverkefni Fuglastígs á Norðausturlandi, Náttúrustofu Norðausturlands, Norðurþings og fleiri aðila. Það er von okkar að hátíðin festi sig í sessi sem árlegur viðburður á Norðausturlandi, tileinkaður fuglaskoðun og samspili manns og náttúru við Norður-Atlantshaf. Hún höfðar ekki síst til þeirra sem eru að taka sín fyrstu skref í fuglaskoðun eða jafnvel ekki komnir á stað. Fuglaskoðun er fyrir alla.
Hægt er að fylgjast með viðburðinum á facebook, Máfahátíð Fuglastígs á Húsavík 2017.