Margt spennandi hjá Menntasetrinu
Þá er ný önn hafin í Menntasetrinu og ýmislegt framundan. Febrúardagskráin lítur senn dagsins ljós og alltaf má koma með ábendingar og óskir um námskeið eða aðra starfssemi. Dagskrána má finna fljótlega á vef Menntasetursins en hún verður einnig send á öll heimili.
Mánudaginn 23. janúar hefst Excelnámskeið í Menntasetrinu, Excel fyrir alla, en það verður kennt á mánud. og fimmtud. frá kl. 15:30-17:30. Ef einhver vill "stökkva" með þá er það ennþá hægt. Námskeiðið er 24 kennslustundir og kostar 24.500 kr.
Mánudaginn 6. febrúar verður boðið uppá endurlöggildingarnámskeið vigtarmanna í fjarfundi. Námskeiðið tekur allan daginn og endar á prófi. Möguleiki er að opna fyrir námskeiðin á Þórshöfn, Húsavík, Vopnafirði og Neskaupstað. Það er Neytendastofa, í samstarfi við Fiskistofu sem stendur fyrir námskeiðinu, en næstu endurlöggildingarnámskeið verða ekki haldin fyrr en árið 2016. Þeir sem hafa áhuga geta haft samband við Menntasetrið eða beint við Neytendastofu um að gera að spara ferðakostnaðinn suður! Ef vel tekst til er vonast til að fá grunnnámskeið vigtarmanna til okkar í vor en það verður þá auglýst þegar nær dregur.
Í vikunni sendi Menntasetrið út viðhorfskönnun til íbúa í Langanesbyggð og Svalbarðshreppi sem eru 60 ára og eldri. Við vonumst til að þessu sé vel tekið og sem flestir svari könnuninni.