Margt um að vera í dymbilviku og um páska
Það er nóg um að vera næstu daga í Langanesbyggð. Auk ýmissa viðburða er veðurspáin góð og sólin komin hátt á loft svo það er um að gera að njóta útivistar og hreyfa sig, ganga, hlaupa eða hjóla. Sundlaugin er opin frá kl. 15:00 og ýmis starfsemi í gangi í íþróttamiðstöðinni, t.d. Body Combat námskeið sem hefst í dag, sjá auglýsingu hér á síðunni.
Svo skal frá því sagt að á þriðjudagskvöldið verður hefðbundin æfing kirkjukórsins í Þórshafnarkirkju þar sem kórinn æfir fyrir páskahátíðina. Á miðvikudaginn, kvöldið fyrir skírdag verður haldin sannkölluð Sagnagleði í safnaðarheimili Þórshafnarkirkju sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Gleðin hefst kl. 20:00.
Á skírdag verður ljósavaka í Þórshafnarkirkju kl. 17:30 með þátttöku fermingarbarna og í Skeggjastaðakirkju kl. 20:00 með þátttöku barna. Laugardaginn fyrir páska er svo fermingarmessa í Sauðaneskirkju kl. 14:00 og ball á Eyrinni um kvöldið með hljómsveitinni Kleópötru. Í íþróttamiðstöðinni verður laugardagsopnun á skírdag, en lokað á föstudaginn langa. En þann dag, föstudaginn langa verður árviss páskaferð Bjsv. Hafliða farin. Sjá nánar hér á síðunni.
Á páskadagsmorgun verður páskamessa kl. 7:30 í Skeggjastaðakirkju og morgunverður eftir stundina. Í Þórshafnarkirkju verður páskamessan kl. 11:00 á páskadag og í Svalbarðskirkju á annan páskadag kl. 14:00. Íþróttamiðstöðin verður opin eins og á laugardegi.