Fara í efni

Með blóti vér blíðka þurfum hann

Fundur
Þá er þorrinn genginn í garð. Loksins, myndi kannski einhver segja, enda er þorrinn gósentíð þeirra sem hafa þörf fyrir að slafra í sig vel geymdum mat og drekka með því helst helling af brennivíni. A

Rétt'upp hönd sem finnst þetta í alvöru gott!

Þá er þorrinn genginn í garð. Loksins, myndi kannski einhver segja, enda er þorrinn gósentíð þeirra sem hafa þörf fyrir að slafra í sig vel geymdum mat og drekka með því helst helling af brennivíni. Aðrir, hugsanlega fleiri, þreyja hinsvegar þorrann og geta vart beðið eftir að þessi tíð súrmetis og ammoníaks líði og við taki Góan með vorinu innan seilingar. Karlpeningurinn hugsar sér gott til glóðarinnar einmitt í dag, bóndadag, enda má ætla að karlmenn flestir komi heim úr vinnu í dag í ilmandi hreingerð hús, í faðm snyrtilegra og vel til hafðra eiginkvenna, heim til prúðra og kurteisra barna, brakandi steik í ofninum, kaldur á kantinum og leikurinn í sjónvarpinu. Áfram Ísland! Lifi karlmenn!

Annars ætti enginn að reyna að hafa um þorrann fátækleg orð þegar um þessa fornu tíð hefur fyrir löngu verið sagt það sem segja þarf:

Til veiga, til veiga
vér vekjum sérhvern mann.
Kominn er illviðrakóngurinn Þorri,
kaldur og fokreiður ættjörðu vorri.
Með blóti, með blóti
vér blíðka þurfum hann.

Hann gægist, hann gægist
með grettum Frónið á,
og sver það, að ef nú enginn blótar,
aðfarir hans skuli verða ljótar.
Til forna, til forna
hér fékk ann blótin há.

Hann situr, hann situr
á svellilögðum stól.
Þegar ann hnerrar, hretin dynja,
hósti ann, fold og jöklar stynja.
Í kvefi, í kvefi
er karlinn mesta fól.

Vér þekkjum, vér þekkjum,
að það er óskaráð,
þegar er kvefið erjar á oss
ærlega kollu þá að fá oss.
Hann Þorri, hann Þorri
kann þetta upp á láð".

Því kollu, því kollu
að kalli réttum vér.
Látum að vitum hans vindlana dampa",
vellheitu toddýi" þíðum hans kampa.
Um skap hans, um skap hans
þá skoðum, hvernig fer.

Til friðar, til friðar
vér flytjum Þorra skál.
Blótum til árs og gæfta góðra,
svo gefi til lands og sjávar róðra!
Vér klingjum, vér klingjum
og kætum líf og sál.

-Hannes Hafstein

Fyrir þá sem vilja vita fleira um þessa fornu tíð en þora ekki að spyrja, má týna til þetta helst:

Mánuðurinn þorri hefst á föstudegi í 13. viku vetrar. Upphaflega mun upphaf hans hafa miðast við fyrsta nýtt tungl eftir vetrarsólhvörf.

Þorri er nefndur í heimildum frá miðöldum sem persónugervingur eða vættur vetrar og þar er einnig minnst á þorrablót. Ekki er vitað hvernig þeim var háttað en lýsingarnar benda þó til mikilla veisla og að menn hafa gert vel við sig í mat og drykk. Engar frásagnir eru í Íslendingasögum eða öðrum fornsögnum sem gerast á Íslandi.

Fyrsti dagur þorra er nefndur bóndadagur en sá síðasti þorraþræll. Um fyrsta dag Þorra segir í bréfi Jóns Halldórssonar í Hítardal (f. 1665) til Árna Magnússonar frá árinu 1728, að sú hefð sé meðal almennings að húsmóðirin færi út kvöldið áður og bjóði þorrann velkomin, og inn í bæ, eins og um tignann gest væri að ræða.

Eins segir í Þjóðsögum Jóns Árnasonar að bóndi skyldi bjóða þorra velkomin með eftirfarandi hætti:

... með því að þeir áttu að fara fyrstir á fætur allra manna á bænum þann morgun sem þorri gekk í garð. Áttu þeir aða fara ofan og á skyrtunni einni, vera bæði berlæraðir og berfættir, en fara í aðra skálmina og láta hina lafa og draga hana á eftir sér á öðrum fæti, ganga svo til dyra, ljúka upp bæjarhurðinni, hoppa á öðrum fæti í kringum bæinn, draga eftir sér brókina á hinum og bjóða þorra velkomin í garð eða til húsa. Síðan áttu þeir að halda öðrum bændum úr byggðarlaginu veislu fyrsta þorradag; þetta er að fagna þorra".

Sumstaðar á Norðurlandi er fyrsti þorradagur enn í dag kallaður bóndadagur" á þá húsfreyjan að halda vel til bónda síns og heita þau hátíðabrigði enn þorrablót".

Núna hefur sú hefð komist á að konur gefi bónda sínum blóm á þessum degi. Líkt og að menn gefa konu sinni blóm á konudaginn, fyrsta dag Góu.

Fyrr á öldum virðast þorrablót fyrst og fremst hafa verið haldin á heimilum fólks og fyrir heimilisfólkið. En þorrablót eins og við þekkjum þau í dag, sem almennar veislur í sal út í bæ og haldin eins og kallað var í upphafi að fornum sið",voru ekki tekin upp fyrr en undir lok 19. aldar.

Þorrablótin lögðust svo af en um miðja tuttugustu öldina var farið að halda þorrablót á veitingastaðnum Naustinu í Reykjavík, þar sem fram var borinn hefðbundinn"íslenskur matur, súr, reyktur og/eða saltaður. Síðan hefur tíðkast að halda þorrablót einhvern tímann á þorra, oftast á vegum félaga og ýmissa samtaka.