Mikið lagt inn hjá sjálfstæðum sparisjóðum - sparissjóðsstjóri á Húsavík opinn fyrir fé á fæti
Viðskiptavinum sjálfstæðu sparisjóðanna hefur á síðustu dögum fjölgað talsvert og margir hafa milljónir í farteskinu.
Nýir viðskiptavinir virðast sækja í fjárhagslegt öryggi sparisjóða sem ekki sóttu í áhættu til jafns við þá viðskiptabanka sem nú standa höllum fæti. Miklar fjárhæðir Guðmundur E. Lárusson, sparisjóðsstjóri
Suður-Þingeyinga, vill ekki segja hvort innistæðuaukning í sparisjóðnum hleypur á tugum eða hundruðum milljóna, en segir að um háar fjárhæðir sé að ræða.
Hann segir þessa ásókn fólks sem ekki hefur áður verið í viðskiptum við bankann hafa staðið í um viku. Guðni Örn Hauksson, sparisjóðsstjóri á Þórshöfn, segir að flestir þeirra sem hafa stofnað til viðskipta hafi umsvifalaust lagt inn milljónir. Hann segir þetta hafa byrjað á mánudagsmorgun og áætlar að það fólk sem á peninga sé nú hrætt og reyni að dreifa peningum sem víðast á fjármálastofnanir sem það treystir.
Ekki hafa allir fundið jafnt fyrir aðsókn í sparisjóðina, því sparisjóðsstjóri Norðfjarðar segir ekki hafa verið mikið um fjárflutninga. Frekar lambhrút en hlutabréf Bæði Guðmundur og Guðni eru sammála um að fólk treysti sjálfstæðu sparisjóðunum því þeir hafi ekki verið jafn áhættusæknir og þeir bankar sem nú riða til falls.
Við höfum ekki tekið þátt í þeim darraðardansi sem hefur verið bæði í sambandi við erlent fjármagn og hlutabréf, segir Guðmundur. Við höfum bara haldið okkur til hlés og verið, eins og menn segja, sveitalegir. Það var vitnað í orðróm í Silfri Egils um að Sparisjóður SuðurÞingeyinga tæki við fé á fæti.
Ég myndi frekar taka við fallegum lambhrúti í dag en öllum hlutabréfunum í Landsbankanum. Guðni bætir við: Við fengum enga uppsveiflu og fáum heldur enga niðursveiflu. Það gengur bara vel á Þórshöfn.
Eftir Herdísi Sigurgrímsdóttur
herdis@24stundir.is