Mikil fólksfækkun í norðanverðri Þingeyjarsýslu
Íbúum í norðanverðri Þingeyjarsýslu fækkaði um 18,6% á tímabilinu 1994-2011. Mesta fækkunin var á Raufarhöfn um 50% og 40% á Bakkafirði. Íbúm á Þórshöfn fækkaði um 17,5% á tímabilinu. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Byggðastofnunar um samfélag, atvinnulíf og íbúaþróun í byggðarlögum með langvarandi fólksfækkun (umfjöllun um norðanverða Þingeyjarsýslu hefst á bls. 26).
Ef horft er á þróunina eftir aldurshópum kemur í ljós að það varð nokkur fjölgun á fólki eldra en fertugu á svæðinu á meðan verulega fækkaði fólki undir fertugu. Fólki undir tvítugu fækkaði um 34% og fólki á aldrinum 20-40 ára um tæp 37%. Athygli vekur að körlum á aldrinum 20-39 ára, sem voru mun fleiri en konur í upphafi tímabilsins, fækkaði mun meira en konum og er nú mun minni munur en áður á fjölda karla og kvenna á þeim aldri en áður.
Mikill brottflutningur umfram aðflutta var á tímabilinu. Mestur var hann árin 1998 þegar að á annað hundrað manns fleiri fluttu af svæðinu en til þess öll árin. Einnig fluttu um 100 færri á svæðið en frá því árið 1995. Aðeins árið 2008 voru aðfluttir fleiri en brottfluttir.
Hlutfall erlendra ríkisborgara jókst úr rúmum 2%af íbúafjölda í upphafi tímabilsins í tæplega 6%í lok þess. Konur með erlendan ríkisborgararétt voru heldur fleiri en karlar með erlendan ríkisborgararétt allt tímabilið og jókst sá munur heldur í lok tímabilsins.
Framkvæmd var viðhorfskönnun meðal íbúa svæða sem skoðuð voru í skýrslunni. Tekið var 1500 manna slembiúrtak fólks á aldrinum 20-39 ára. Niðurstöður byggja á svörum frá 281 þátttakanda og svarhlutfall var 19%. Rétt er að setja fyrirvara við alhæfingargildi viðhorfskönnunarinnar þar sem svarhlutfall var svo lágt, en engu að síður gefa svörin vísbendingar sem vert er að skoða.
Svarendur flestra svæða töldu atvinnutækifæri fyrir bæði karla og konur frekar eða mjög slæm, en í Vestmannaeyjum voru þau að meirihluta sögð mjög eða frekar góð fyrir bæði karla og konur. Afgerandi meirihluti svarenda í öllum landshlutum taldi atvinnulífið mjög eða frekar einhæft.
Um 53% svarenda, eða 150 af 281 hafa íhugað að flytja frá byggðarlaginu. Þar af hafa 80% svarenda 20-24 ára íhugað að flytja, um 48% á aldrinum 25-29 ára, 54% á aldrinum 30-34 ára og 45% á aldrinum 35-39 ára. Hlutfallslega fleiri karlar en konur höfðu íhugað að flytja, eða 60% á móti 49%. Flestir nefndu fá atvinnutækifæri sem ástæðu, eða 37%. Hlutfallslega fæstir sögðust ætla að flytja frá Vestmannaeyjum. Fjórir af hverjum tíu sögðust ætla flytja frá Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra og Austurlandi á meðan fimm af hverjum tíu hyggja á flutninga frá Suðausturlandi.