Fara í efni

Nemendur leggja sitt af mörkum til mótunar skólastefnu

Fréttir
Undanfarna daga hefur Ingvar Sigurgeirsson, prófessor við kennaradeild Háskóla Íslands, fundað með nemendum skólanna hér í byggðinni í tengslum við undirbúning að mótun skólastefnu. Fundað var með nánast öllum nemendum grunnskólanna og þeir spurðir um hvað þeim líkaði vel við skólana sína og hvað mætti helst betur fara.

Undanfarna daga hefur Ingvar Sigurgeirsson, prófessor við kennaradeild Háskóla Íslands, fundað með nemendum skólanna hér í byggðinni í tengslum við undirbúning að mótun skólastefnu. Fundað var með nánast öllum nemendum grunnskólanna og þeir spurðir um hvað þeim líkaði vel við skólana sína og hvað mætti helst betur fara. Til tíðinda telst að einnig var haldinn fundur með elstu leikskólabörnunum og þau spurð álits – en það hefur ekki verið gert áður í hliðstæðum verkefnum, eftir því sem við best vitum. Leikskólabörnin höfðu margt til málanna að leggja og voru ánægð með skólann sinn.

Börnin hrósuðu flest kennurum sínum og létu mörg í ljós sérstakan áhuga á smíðum, íþróttum, sundi og heimilisfræði. Þá eru valgreinar í Grunnskóla Þórshafnar og vinnustofur í Grunnskólanum á Bakkafirði í miklum metum hjá eldri hópnum. Þá eru nemendur ánægðir með íþróttahúsið og unglingarnir á Þórshöfn kunna vel að meta setustofuna sína. Þá hrósuðu nemendur mötuneytum skólanna. Sem dæmi um önnur ánægjuefni má nefna græna kortið sem unglingarnir fá til heilsuræktar í íþróttahúsinu og morgunmatinn sem nemendum á Bakkafirði stendur til boða.

Efst á óskalista nemenda á Þórshöfn eru fleiri leiktæki á leikvöllinn, Bakkafjarðarbörnin vilja meiri íþróttir og í Svalbarðsskóla eru nýjar tölvur efst á blaði. Þá vilja flestir nemendur gjarnan meira val, verklegt nám, tilraunir og mælingar. 

Ingvar verður hér næst á ferðinni í nóvember og er þá stefnt að öðrum íbúafundi á Bakkafirði, fundum með skólaráðum, fræðslunefnd og sveitarstjórn. Tillaga að skólastefnu á að liggja fyrir um áramót.

Þeir sem ekki náðu að hitta á Ingvar Sigurgeirsson í þessari ferð eða vilja ræða við hann aftur er bent á að hafa beint samband við hann í síma 896 3829 eða í tölvupósti skolastofan@skolastofan.is.