Norðausturnefnd!
Nefnd sem forsætisráðherra hefur skipað og fjallar um leiðir til að styrkja atvinnulíf og samfélag í fámennum byggðarlögum á Norðurlandi eystra og Austurlandi hélt fund á Húsavík þriðjudaginn 5. febrúar sl. með fulltrúum sveitarstjórna, ríkisstofnana og atvinnulífs á svæðinu.
Á fundinum gerði nefndin grein fyrir hlutverki sínu og störfum.
Nefndinni, sem á að skila forsætisráðherra tillögum fyrir lok apríl nk., er meðal annars ætlað að gera tillögur um mögulega styrkingu menntunar og rannsókna, uppbyggingu iðnaðar og þjónustu og flutning starfa frá höfuðborgarsvæðinu til Norðurlands eystra og Austurlands.
Brýnt er að frumkvæði að og eftirfylgni með þeim tillögum sem nefndin mun leggja til við forsætisráðherra komi frá heimamönnum. Lokaskil tillagna til nefndarinnar er 20. febrúar nk. Mikilvægt er að undirbúningur og útfærsla tillagna sé vandaður.
Í nefndinni eru Halldór Árnason skrifstofustjóri í forsætisráðuneyti sem jafnframt er formaður nefndarinnar, Guðrún Þorleifsdóttir, lögfræðingur í iðnaðarráðuneyti, Gísli Þ. Magnússon, skrifstofustjóri í menntamálaráðuneyti, Björn Ingimarsson, formaður Eyþings og sveitarstjóri Langanesbyggðar og Þorvaldur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Austurlandi. Starfsmaður nefndarinnar er Hanna Dóra Másdóttir, deildarsérfræðingur í iðnaðarráðuneyti.
Frekari upplýsingar veita Hanna Dóra Másdóttir í iðnaðarráðuneyti s: 545-8500 og Tryggvi Finnsson framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga s: 464-0415.
Íbúum Langanesbyggðar er bent á að koma hugmyndum á framfæri við fulltrúa í sveitarstjórn Langanesbyggðar, sveitarstjóra eða fulltrúa hans.
Virðingarfyllst.
F.h. Langanesbyggðar
_____________________
Björn Ingimarsson
sveitarstjóri